Setja þarf í lög refsingar við ólögmætum ákvörðunum stjórnmálamanna

Dr. Haukur Arnþórsson

Dr. Haukur Arnþórsson, stjórnsýslufræðingur, hefur sett fram áhugaverð sjónarmið sín vegna úrskurðar Umboðsmanns Alþingis um hvalveiðibann matvælaráðherra vorið 2023.

Hann segir:

„1. Ég tel að setja þurfi í lög refsingar við ólögmætum ákvörðunum stjórnmálamanna – þ.e. ásetningsbrotum þeirra – sem teknar eru fyrst og fremst í því skyni að afla sér fylgis á kostnað ríkisins (almennings). Það er að fara framhjá lýðræðinu. Við höfum tvö nýleg dæmi um þetta eða reglugerð sjávarútvegsráðherra um makrílveiðar fyrir nokkrum misserum og umrætt hvalveiðibann.

Enda þótt segja megi að margir stjórnmálamenn hafi tekið ákvarðanir sem (virðast) hygla eigin flokksmönnum og í því skyni að auka fylgi sitt, t.d. rétt fyrir kosningar, þá er meginmunur á því að gera það löglega eða ólöglega. Best væri að ávirðingar ráðherra og kærur vegna þeirra gengju til stjórnlagadómstóls, en í okkar tilviki yrðu það að vera almennir dómstólar.

2. Við getum aldrei samþykkt að góður málstaður réttlæti lögbrot – þótt við höfum neyðarrétt (force majeure) sem er annað. Við getum aldrei samþykkt að stjórnmálamenn – með vilja eða að kröfu þrýstihópa eða jafnvel alls almennings – brjóti lög. Það grefur undan samfélagsgerðinni og eyðileggur samfélagssáttmálann. Það er of dýru verði keypt og getur undið upp á sig.

3. Hér er óhjákvæmilegt að nefna að gömul sjónarmið úr stéttarbaráttu fyrri tíma segja: “Tilgangurinn helgar meðalið”. Hér á landi var þetta viðkvæðið hjá kommúnistum á síðustu öld. Hægri menn hafa fremur borgaraleg gildi í hávegum. Það eimir eftir af þessari byltingarréttlætingu hjá sumum vinstri mönnum enn í dag.

Enginn stjórnsýslufræðingur eða lögfræðingur getur tekið undir slík niðurrifs-sjónarmið og þau eru sérstaklega hættuleg fyrir minnihlutahópa, fyrir fátæka og fyrir þá sem eiga undir högg að sækja, því stjórnmálafylgi ver stöðu þeirra ekki endilega. Það gerir hins vegar lagaumhverfið.“