Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra, virðist í góðum gír þessa dagana, þar sem hann heldur borgaralegum öflum við efnið og minnir framsóknarfólk og sjálfstæðismenn á grunngildi flokka þeirra og stefnu gegnum tíðina.
Í miðopnugrein í Morgunblaðinu nú um verslunarmannahelgina hendir Sigmundur Davíð gaman að tilraunum forystu Sjálfstæðisflokksins til að kveða niður óánægjuraddir í flokknum. Bendir hann á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hafi viljað ná fram smávægilegum bótum á útlendingastefnu flokksins en verið lítillækkaður með því að kosið var aftur til að staðfesta „stefnu sem var enn Samfylkingarlegri en stefna Samfylkingarinnar? Rökstutt með því að annars liti flokkurinn illa út (ekki nógu Samfylkingarlega?).“
Svo skrifar hann:
Sjálfstæðisflokkurinn hefur í þessu ríkisstjórnarsamstarfi leitt mestu útgjaldaaukningu ríkissjóðs frá landnámi, skattar og gjöld hafa hækkað, verðbólga (og fyrir vikið vextir) hefur snarhækkað, útlendingamál eru í tómu tjóni (sjá magnaða grein Sigríðar Á. Andersen um það), Nýja Framsókn hefur fengið að leika lausum hala og hver einasta dellukenning VG hefur verið rekin áfram af hörku af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
GreininginÍ sálfræði kallast þetta víst Stokkhólmsheilkennið. Ég er þó ekki nógu vel að mér í faginu til að vita hvort hugtakið á við þegar „gíslarnir“ afsaka ekki aðeins framferði yfirboðaranna heldur reyna að eigna sér stefnu þeirra (eins og ítrekað hefur gerst). Eða þegar þeir taka að sér að bjarga stefnu andstæðinga sem þeir ættu að vera algjörlega óháðir. Hér má augljóslega vísa í borgarlínuna svo kölluðu. Aðalkosningaloforð Samfylkingarinnar í hálf-gjaldþrota Reykjavík í tvennum kosningum. Loforð sem þingflokkur sjálfstæðismanna tók að sér að fjármagna með óútfylltri ávísun og einhverjum verðmætustu eignum ríkisins.
Hvað kallast það svo þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa mestar áhyggjur af þeim sem minna þá á eigin stefnu en leggja þess í stað áherslu á mikilvægi þess að laga sig að stefnu VG (og Nýju Framsóknar)? Þingflokkur sem er búinn að laga sig svo vel að umbúðamennsku samtímans að hann er farinn að útskýra að meðvirkni sé í raun dyggð.“
Loks segir Sigmundur Davíð:
„Við höfum bent á aðrar leiðir og þegið skammir fyrir. Við höfum grátbeðið Sjálfstæðisflokkinn um að fara ekki gegn öllu því besta í stefnu sinni og fengið óblíðar móttökur vegna fullkominnar fylgispektar hans við VG. Við höfum varað við ótal mistökum og bent á aðrar leiðir. Nú síðast björguðum við flokknum, í bili, frá því að samþykkja aukna eftirgjöf fullveldis, loftslagsskatta til að draga úr samgöngum við landið og áformum um að setja alla landsmenn á námskeið til að kenna þeim Vinstri grænt hugarfar og tjáningu.
Er eitthvað fleira sem við getum gert fyrir ykkur? Eða líður ykkur best í faðmi þeirra sem fyrirlíta gömlu grunnstefnuna ykkar og þeirra sem segjast „bíða átekta“?“