„Svo því sé haldið til haga, í ljósi ummæla formanns VG um fyrri vantrauststillögur á ráðherra í hennar ríkisstjórn, þá á VG ekkert inni hjá Sjálfstæðisflokknum. Nákvæmlega ekkert,“ segir Sigríður Á. Andersen, sem var dómsmálaráðherra í fyrsta ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, en hún vísar þar til þeirra ummæla forsætisráðherra frá í fyrradag, að rétt sé að minnast þess að Vinstri græn hafi tvívegis varið dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins vantrausti, Sigríði og Jón Gunnarsson.
Sigríður segir hins vegar vert að gefa því gaum að Svandís Svavarsdóttir sé þriðji ráðherrann sem reynt sé að grafa undan. Áður hafi Jón Gunnarsson þurft að verjast óskiljanlegri vantrauststillögu og svo settur út úr ríkisstjórn. Nýlega hafi svo formaður Sjálfstæðisflokksins farið úr fjármálaráðuneytinu „með furðulegri vísan“ til álits umboðsmanns Alþingis, eins og hún lýsir svo.
„Sjálf hef ég reynslu af ómálefnalegri og rakalausri vantrauststillögu á fyrra kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar.
Það er óþarfi að kippa sér upp við pólitískt at og gagnrýni stjórnarandstöðu á hverjum tíma. Það er að nokkru hlutverk hennar. Það sem áðurnefndir ráðherrar eiga hins vegar sameiginlegt er að það eru samstarfsmenn í ríkisstjórnarsamstarfinu sem hafa hamast hvað mest á þeim með hótunum um að ganga til liðs við stjórnarandstöðuna í hennar pólitíska ati.
Þær skeytasendingar sem nú ganga á milli þingmanna ríkisstjórnaflokkanna benda ótvírætt til að samstarfið sé komið á einhvers konar endastöð. Því miður blasir við að ekki náist samstaða um neitt sem til hagsældar væri fallið. Við kjósendum blasa einungis mál sem kalla á enn meiri skatta og meiri neyslustýringu. Vilji hægri menn hoppa af vagninum og slíta samstarfinu er heiðarlegra gagnvart kjósendum að gera það með vísan til forsendna samstarfsins og málefna fremur en með því að samþykkja upphlaup stjórnarandstöðunnar. Þannig gefst líka öllum færi á að axla ábyrgð sem þeir vissulega bera á því sem miður hefur farið við efnahagsstjórn landsins.
Vantrauststillögur á einstaka ráðherra orka tvímælis og eru enda fátíðar. Þegar slíkar tillögur eru byggðar á álitum embættismanna, úrskurðarnefnda (sem hér eru mýmargar) eða stofnana innanlands eða utan er hætt við að menn fari að telja það óhjákvæmilegt í kjölfar slíkra álita að ráðherra segi af sér. Að einhver „axli ábyrgð“. Það, og jafnvel vantrauststillögur sem vísa í dómsniðurstöður um einstaka embættisfærslur ráðherra þegar þær eru háðar túlkun eða mati á lögum, eru til þess fallnar að vega að stjórnskipaninni og stjórnmálalegum stöðugleika. Það hefur svo aftur áhrif á lífskjör í landinu til hins verra,“ segir Sigríður Á. Andersen ennfremur.