Sigurgeir Brynjar Kristinsson, eða Binni í Vinnslustöðinni, fer hörðum orðum um stöðu Íslands í síldveiðum í viðtali við Fiskifréttir á dögunum.
„Síldarmarkaðurinn er algjörlega í rúst hjá okkur Íslendingum. Orðspor íslenskrar síldar er ekkert,“ segir Binni, sem er forstjóri Vinnslustöðarinnar í Vestmannaeyjum og hefur verið um árabil.
„Við höfum algjörlega misst stöðu okkar sem síldarframleiðendur, og ástæðan er sú að við erum hætt að veiða hana í nót.“
Binni lýsir veiðiaðferðunum þannig:
„En þetta er þannig að við trollum þetta allt saman. Svo er þetta trollað í 5-6 tíma og tekin nokkur hundruð tonn í hverju hali. Síldin er þá öll marin, skemmd og ónýt. Á markaðnum er okkar síld langlakasta síldin. Menn vilja síst af öllu kaupa íslenska síld, sem áður var verðmæt.“
Og hann bætir við:
„Þegar þú ferð með troll í gegnum síldartorfu þá tvístrast hún öll saman. Það er ekkert hægt að vera þar með nót. Svo ertu með miklu meiri olíu og langlökustu síldina á markaðnum. Það er allt vont í þessu, og þetta er meðal annars ástæðan fyrir því að Norðmenn fá hærra verð fyrir síldina sína og makrílinn.“