Sjálfhverfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar?

Skjáskot/ruv.is

„Blaðamannafundur til að tilkynna að ríkisstjórnin standi styrkum fótum. Það eru engar ýkjur þegar talað er um sjálfhverfustu ríkisstjórn Íslandssögunnar,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, á fésbókinni.

„Og svo alls konar sama bla bla sem við höfum svo oft heyrt áður frá formönnunum þremur. Og svo stólaskipti innan Sjálfstæðisflokksins. Ég man ekki eftir öðru eins húllumhæi í kringum slíkt áður. En hey, sjálfhverfa er sjálfhverfa.“

Og hún bætir við:

Hanna Katrín Friðriksson.

„Kannski kemur smá tími núna þar sem hægt verður að einbeita sér bara að því að stjórna? Takast á við verðbólguna og ofurháa vexti í stað þess að slást innbyrðis. Bæta stýringu á heilbrigðiskerfinu í stað þess að reyna að stýra hvert öðru. Framfylgja almennilegri loftslagsstefnu og tryggja hér nauðsynlega orku í stað þess að eyða eigin orku í innbyrðis átök.

Ég óska ríkisstjórninni allri velfarnaðar í þeim mikilvægu verkefnum.

En á meðan helsta afsökunin fyrir lélegri frammistöðu ríkisstjórnarinnar er sú – hjá öllum þremur flokkunum – að flokkarnir séu svo ólíkir en þeir ætli sér auðvitað samt áfram að „vinna” saman – þá sitjum við bara í sama súpugutlinu.“