Sjálfstæðisflokkur á leið inn í skeið hjaðningavíga og langvarandi áhrifaleysis?

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

Innanflokksdeilur í Sjálfstæðisflokknum fara ekki framhjá neinum. Grasrót flokksins leggst öndverð gegn þriðja orkupakkanum og margir telja borgaraleg gildi mjög á undanhaldi í stjórnarsamstarfinu.

Fréttablaðið sagði í gær að „uppgjafaformenn“ flokksins væru áberandi í umræðunni og átti þar líklega við menn á borð við Davíð Oddsson og Þorsteinn Pálsson. Hinn fyrrnefndi fer mikinn í stjórnmála skrifum Morgunblaðsins, en sá síðarnefndi er farinn í Viðreisn ásamt hópi Evrópusinnaða sjálfstæðismanna.

Össur Skarphéðinsson, fv. formaður Samfylkingarinnar og utanríkisráðherra, setur fram stutta stjórnmálaskýringu á fésbókinni um valdataflið sem nú stendur yfir í Valhöll:

„Davíð Oddssyni er að takast það sem vinstri mönnum tókst aldrei — að rífa sundur Sjálfstæðisflokkinn. Allt bendir til að ritstjóra Moggans sé að takast að leiða flokkinn inn í skeið hjaðningavíga og langvarandi áhrifaleysis í stjórnarandstöðu. Allt er það í boði sægreifanna sem eiga Moggann og borga bæði tapið af honum og laun Davíðs. Hann er langáhrifamesti stjórnarandstæðingurinn í dag og fyrir vinstri vænginn ígildi vel þjálfaðrar fimmtu herdeildar….“