Spennan fer enn vaxandi í íslenskum stjórnmálum, enda vita flestir að óhjákvæmilegt er að dragi til tíðinda á stjórnarheimilinu áður en langt um líður. Ríkisstjórninni er haldið lifandi af ótta við bága stöðu stjórnarflokkanna sem vísbendingar eru um í skoðanakönnunum og á meðan fer Samfylkingin með himinskautum og Miðflokkurinn er aftur að ná vopnum sínum. Vísbendingar eru um að Viðreisn ætli sér líka að róa á borgaralegu miðin og færa pólitík sína yfir á miðhægrið og kominn tími til, myndi einhver segja.
Þeir sem eldri eru en tvævetur í pólitík, vita að fátt í heimi þar er tilviljun. Sjálfstæðisflokkurinn beinir spjótum sínum nú af öllu afli að höfuðandstæðingnum Samfylkingunni og notar hennar veikasta punkt –– stöðuna í Reykjavíkurborg.
Meira að segja Kristrún Heimisdóttir, gamalreynd Samfylkingarkona og fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, er forviða á stöðu borgarinnar og tíðindum af sölu Perlunnar. Hún skrifar á fésbók sína: „Jafnvel á versta tíma hrunsins þegar sum stærstu sveitarfélög landsins voru í raun gjaldþrota man ég ekki eftir sambærilegri bráðasölu stóreigna. Hvað gerist næst? Staðan er hörmuleg. Sorglegt að hugsa til afleiðinga og ástæðna.“
Parísarhjólið dugar ekki til
Þannig er ljóst að í Ráðhúsinu situr Dagur B. Eggertsson sannarlega ekki á friðarstóli á lokavikum sínum sem borgarstjóri; fjárhagsstaðan er grafalvarleg og mörg umdeild mál erfið meirihlutanum. Einhvern tímann hefði dugað sem smjörklípa að leggja til Parísarhjól á Hafnarbakkann, en staða höfuðborgarinnar nú er alvarlegri en svo að slík trikk gangi í mannskapinn. Og það vita sjálfstæðismenn.
Fram til þessa hefur þeim gengið erfiðlega að ná einhverji taki sem heitið getur á formanninum Kristrúnu Frostadóttur, en borgarmálin gætu orðið þeim drjúgar veiðilendur. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra veit það vel og þess vegna skrifaði hann aðsenda grein í Morgunblaðið í dag um samgöngumálin og borgarlínuna til að setja strik í sandinn og láta finna fyrir sér.
Skilaboð Sjálfstæðisflokksins eru skýr: Sjáið stöðuna á borgarsjóði, vilja landsmenn að ríkissjóður lendi í sama basli? Á þessu munu erindrekar Valhallar hamra næstu daga og vikur, ekki síst til að þétta eigin raðir og fá óhamingjusama flokksmenn til að gleyma verklítilli ríkisstjórn um stund og gleymdum kosningaloforðum og landsfundarályktunum.
Samfylkingin hefur lengi búið sig undir slíka breiðsíðu. Þar á bæ var áður fyrr talað um turnana tvo og litið á Sjálfstæðisflokkinn sem höfuðandstæðing. Og innan Samfylkingarinnar hefur fyrir löngu verið kortlagt hverjir eru veikustu blettir Bjarna Benediktssonar og liðsmanna hans. Ballið er því rétt að byrja og loturnar gætu orðið allnokkrar…