Sjálfstæðisflokkurinn brugðist skelfilega seint við

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra, borgarstjóri og formaður Sjálfstæðisflokksins, tekur flokk sinn í karphúsið í leiðara blaðsins í dag þar sem umfjöllunarefnið er straumur hælisleitenda hingað til lands.

Jón Gunnarsson fráfarandi dómsmálaráðherra sagði á dögunum að stjórnleysi væri í málaflokknum og Bjarni Benediktsson formaður flokksins viðurkenndi í upphafi vikunnar að við Íslendingar hefðum misst stjórn á straumi hælisleitenda til landsins. Fram að því hefur einkum Miðflokkurinn og þingmennirnir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bergþór Ólason gagnrýnt þróun mála á hinu pólitíska sviði.

Í leiðara Moggans er bent á pólitískar kollsteypur í Evrópu þar sem þjóðarleiðtogar á borð við Macron Frakklandsforseta og Scholz Þýskalandskanslara hafi átt erfitt með að finna fjölina sína. Sænsk stjórnvöld hafi gjörbreytt um áherslur í útlendingamálum og ný stjórn í Finnlandi hafi kynnt öflug og ábyrg viðbrögð.

„Mörgum þykir að Sjálfstæðisflokkurinn hafi brugðist skelfilega seint við sambærilegu ástandi og Finnar taka nú á og var þeirra staða þó ekki jafn gjörtöpuð og fékk að gerast hjá okkur. Danskir jafnaðarmenn hafa tekið nokkuð á sínum vanda, en við lyftum ekki litla fingri,“ segir Davíð í leiðaranum.