Þing kemur saman á morgun að loknu jólaleyfi í skugga boðaðrar vantrausttillögu Miðflokksins og Flokks fólksins á Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra í kjölfarið á áliti Umboðsmanns Alþingis um að ólöglega hafi verið staðið að skyndibanni við hvalveiðum sl. sumar.
Þótt álit Umboðsmanns hafi verið birt 5. janúar sl. bólar ekkert á viðbrögðum Svandísar við því að Vinstri grænna í heild. Sama dag og það var birt, sagðist hún reyndar það taka það alvarlega, en lögin væru úrelt og brýnast væri að sínu mati að uppfæra þau. Vöktu þau viðbrögð harða gagnrýni, sem þingflokksformaður VG og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra svöruðu með því að álitið yrði „vandlega rýnt“ í ráðuneytinu og frekari viðbragða væri að vænta.
Síðan hefur ekkert heyrst. Vitað er að einstakir þingmenn stjórnarliðsins, einkum þingmenn Sjálfstæðisflokksins, telja sig ekki geta varið Svandísi vantrausti að óbreyttu og hefur formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, kallað eftir viðbrögðum Vinstri grænna og Svandísar og gagnrýnt hve löng sú bið sé orðin.
Á föstudagskvöldið gerðist það svo að Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, boðaði herta afstöðu stjórnvalda í málefnum hælisleitenda og auknar heimildir lögreglu til að bregðast við skipulagðri glæpastarfsemi. Við sama tækifæri gagnrýndi hann harðlega þá ákvörðun borgaryfirvalda að heimila áfram tjaldborg mótmælenda á Austurvelli.
Engin viðbrögð hafa komið fram opinberlega frá þingmönnum eða forystu Vinstri grænna við þessu útspili utanríkisráðherrans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fjölmiðla. Meðan þögnin ein kemur úr herbúðum flokksins, má gera því skóna að VG hafi samþykkt að taka upp harðari stefnu í þessum málaflokki, en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra hefur m.a. talað gegn frekari fjölskyldusameiningum dvalarleyfishafa hér frá Palestínu og kynnt drög að frumvarpi um lokaðar flóttamannabúðir, eða það sem kallað er á kerfismáli: lokuð búsetuúrræði.