Sjálfstæðismenn ánægðir með útspil formannsins en hvað svo?

Mikil ánægja virðist vera meðal sjálfstæðismanna með útspil Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra um tjaldborgina á Austurvelli og straum hælisleitenda til landsins, ef marka má viðbrögð margra þeirra á samfélagsmiðlum. Engin viðbrögð hafa hins vegar komið úr röðum Vinstri grænna, samstarfsflokksins í ríkisstjórn, en hart er tekist á um málið á samfélagsmiðlum og saka margir ráðherrann um útlendingaandúð og rasisma. Þar sem sjálfstæðismenn eru í ríkisstjórn, verður að draga þá ályktun að ummæli formannsins séu merki um stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar, enda tala margir þingmenn flokksins á þann veg.

Viljinn hefur tekið saman nokkur ummæli sjálfstæðismanna á samfélagsmiðlum:

Jón Gunnarsson, fv. dómsmálaráðherra: „Sú alvarlega staða sem er í hælisleitendamálum hér á landi getur ekki viðgengist lengur. Hér fer formaður Sjálfstæðisflokksins vel yfir þessa alvarlegu stöðu, þau skref sem nauðsynlegt er að stíga og þola ekki bið.“

Þórður Þórarinsson, framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins: „Ólíkt því sem margir halda fram, þá hefur Ísland samþykkt hlutfallslega langtum fleiri umsóknir hælisleitanda en nokkurt annað norrænt land. Sem hefur haft í för með sér að umsóknir sem berast Íslandi um alþjóðlega vernd eru jafnframt hlutfallslega langtum fleiri en berast öðrum Norðurlöndum.

Ég gekk fram hjá ömurleikanum á Austurvelli í fyrsta skipti í gær. Mér var brugðið, enda ruslið og draslið enn verra en mér hafði dottið í hug. Þegar ég horfði frá alþingishúsinu að styttu Jóns Sigurðssonar blasti við fánaborg erlends fána. Vanvirðingin sem Alþingi er þarna sýnd er þannig að hún dæmir sig auðvitað sjálf og er málstaðnum ekki til framdráttar. Ótrúlegt að Einar Þorsteinsson skuli hafa samþykkt að leyfa þennan ósóma áfram. Þetta á ekkert skylt við friðsöm mótmæli.“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins: „Það eru dapurleg skilaboð frá nýjum borgarstjóra að lengja heimild mótmælenda til að vera með tjaldbúðir á Austurvelli. Enn ein dapurlega leiðin hans til breytinga sem hann boðaði í kosningabaráttu sinni. Hér segir Bjarni allan sannleikann og boðar breytta tíma í málefnum hælisleitenda.“

Baldur Hermannsson, eftirlaunamaður: „Jæja, kosningar í uppsiglingu! Og bráðum verður kynnt hvað gera þurfi fyrir okkur gömlu hróin.“

Júlíus Hafstein, fv. borgarfulltrúi og sendiherra: „Þetta er mjög góð samantekt. En það nægir ekki að skrifa fallega um þetta mál. Það þarf að framkvæma og taka réttar ákvarðanir. Hælisleytendafjölgunin er orðin hættuleg fyrir land og þjóð.“