Sjálfstæðismenn í hringferð um landið: Segja verndarkerfið á Íslandi á þolmörkum

„Verndarkerfið á Íslandi er á þolmörkum og boðar Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra aðkallandi breytingar á útlendingalöggjöf,“ segir í auglýsingu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur birt á samfélagsmiðlum, en flokkurinn hefur boðað til opins fundar um málaflokkinn í Grófinni 8 í Reykjanesbæ á morgun, fimmtudaginn 22. febrúar klukkan 18.

Frummælendur verða þau Bjarni Benediktsson, formaður flokksins og utanríkisráðherra og Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Suðurkjördæmis og dómsmálaráðherra.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins heldur í sína árlegu hringferð dagana 22. – 27. febrúar næstkomandi. Í þessum fyrsta legg hringferðarinnar mun þingflokkurinn funda á 18 stöðum hringinn í kringum landið þar sem fólki gefst tækifæri til að eiga beint og milliliðalaust samtal við þingmenn og ráðherra um þau mál sem helst á brenna.

Föstudaginn 23. febrúar verður þingflokkurinn á opnum súpufundi á Akranesi kl. 12:00. Þaðan verður haldið að Bessastöðum í Húnaþingi vestra þar sem nærsveitungum er boðið á opinn fund í fjósinu kl. 15:00. Á föstudagskvöld verður þingflokkurinn með trúnaðarmönnum á Blönduósi.

Laugardaginn 24. febrúar hefur þingflokkurinn á morgunfundi á Sauðárkróki kl. 10:00 en þaðan er haldið á hádegisfund á Siglufirði en daginn endar á opnum fundi á Akureyri kl. 16:30.

Þingflokkurinn er síðan á opnum fundi í Vogafjósi við Mývatn kl. 11:00 á sunnudaginn og heldur þaðan á Egilsstaði þar sem haldin verða kvenna- og karlaboð kl. 15:00. Þaðn er haldið á Reyðarfjödð þar sem haldinn er opinn fundur kl. 17:30.

Hádegisfundur verður á Djúpavogi á mánudag en þaðan er haldið á Höfn þar sem verður opinn fundur kl. 16:30 í Heppu og endað á Kirkjubæjarklaustri á bjórkvöldi í Skaftárstofu kl. 20:00.

Síðasta daginn í þessari fyrstu lotu er þriðjudagurinn 27. febrúar en þá verður þingflokkurinn á opnum fundum í Friðheimum í Bláskógabyggð kl. 12:00, á Flúðum kl. 14:20, á Selfossi í Bankanum vinnustofu kl. 16:30 og í hlöðunni í Hjalla í Ölfusi kl. 18:00.