Skilur ekki forystumenn í eigin flokki

Það er greinilega nóg til í ríkiskassanum miðað við þá ákvörðun menntamálaráðherra að fela Listaháskóla Íslands að setja á laggirnar nám í kvikmyndagerð á háskólastigi. Ljóst er að það verður ekki gert nema með mörghundruð milljóna króna fjárframlagi.

Þetta er þeim mun furðulegra, að fyrir er í landinu sérstakur kvikmyndaskóli, Kvikmyndaskóli Íslands sem lengi hefur kennt á framhaldsskólastigi við góðan orðstýr, en hefur í tvö ár beðið eftir svörum frá menntamálaráðuneytinu við áformum um að fá háskólaviðurkenningu. Sú nafnbót hefði ekki þurft að kosta ríkisvaldið neitt.

Rektor Kvikmyndaskólans, leikstjórinn Friðrik Þór Friðriksson, gat eðlilega ekki leynt undrun sinni yfir útspili Lilju D. Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og ríkisstjórnarinnar í viðtali við Ríkisútvarpið á dögunum.

„Við erum búin að bíða eftir því að fá viðurkenningu í 22 mánuði. Embættismennirnir hafa bara ekki gert neitt í þessum málum og ekki ráðuneytið heldur. Að fara að búa til nýja deild í listaháskólanum, ég sé það aldrei gerast nema fyrir um 500 milljónir á ári. Ég held þetta sé mjög vanhugsað,“ sagði hann.

Friðrik benti á að fjölmargir nemendur, íslenskir og erlendir, stundi þegar kvikmyndanám hér á landi og því sé óskiljanlegt að ríkið gangi fram hjá Kvikmyndaskólanum og ætli að ríkisvæði þessa grein, eins og svo margar aðrar. „Í staðinn fyrir að leggja kostnað í þetta. Það kostar ríkið ekki neitt að fá okkur þessa viðurkenningu. Ég bara skil ekki stjórnmálamenn sem haga sér svona,“ bætti hann við.

Það eru óneitanlega athyglisverð ummæli, því Friðrik Þór er einmitt í framboði fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavík í komandi kosningum, eins og menntamálaráðherrann Lilja Alfreðsdóttir…