Skiptir um banka: Jafnrétti sjálfsagt en þetta er kjánalegt ofstæki

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

„Ég ætla að færa viðskipti mín frá Íslandsbanka. Manneskjum með svo lélega dómgreind er ekki treystandi fyrir fé. Enda hlýtur maður að ætla að þeim þyki það sjálfsagt að ég kjósi að eiga ekki viðskipti við banka sem gætir ekki betur að jöfnu hlutfalli kvenna og karla í hópi starfsmanna að það sé 60/40.“

Þetta segir Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari í færslu á fésbókinni, þar sem hann fjallar um ákvörðun Íslandsbanka að auglýsa ekki í fjölmiðlum nema þeir gæti að réttum kynjahlutföllum.

„Ég finn kannski ekki banka með jöfn hlutföll starfsmanna eftir kyni, en þeir sem þar starfa hafa kannski dómgreind til að skilja að það er margt annað en kynferði sem ræður því hvaða starf fólk kýs sér og hvaða viðmælendur fjölmiðlar taka viðtöl við,“ segir Helgi Magnús.

„Það yrði kannski skrýtin útkoma ef menn ætluðu að taka viðtöl við sjómenn á sjómannadaginn og tryggja jöfn hlutföll eða starfsmenn á dekkjaverkstæðum. Svona mætti lengi telja. Ég efast um að fjölmiðlar velji út þessa fáu karlmenn sem eru hjúkrunarfræðingar, vilji þeir ræða störf hjúkrunarfræðinga.

Jafnrétti er sjálfsagt en þetta er kjánalegt ofstæki,“ segir hann ennfremur.