Skoðanaelítan og hinir aumkunarverðu

Dr. Haukur Arnþórsson

Eitt hörmulegasta skipbrot bandarískrar stjórnmálasögu fólst í tapi Hillary Clinton, forsetaefnis Demókrataflokksins, fyrir Donald Trump, frambjóðanda Repúblikana, í forsetakosningunum þar í landi fyrir þremur árum. Allt kerfið vann með Hillary, sem var margsigldur frambjóðandi, fyrrum utanríkisráðherra, öldungardeildarþingmaður og forsetafrú. En þó fór svo að Trump hafði sigur, þvert á allar spár og eru stjórnmálaskýrendur enn að rýna í tölur og velta fyrir sér hvað gerðist eiginlega á lokametrunum í kosningabaráttunni.

Í einfaldaðri mynd má segja að Hillary hafi verið fulltrúi skoðanaelítunnar í Bandaríkjunum, en milljarðamæringurinn Trump náði einhvern veginn að tryggja sér fylgi grasrótarinnar — hins venjulega Bandaríkjamanns. Vinsældir hans meðal kjósenda urðu mörgum mikið undrunarefni, þekktir fjölmiðlamenn upplýstu að þeir þekktu engan sem ætlaði að kjósa hann og svo fór að Hillary missti eitt sinn út úr sér að fylgismenn Trumps væru aumkunarverðir (e. deplorables).

Þetta reyndust dýrkeypt mistök, því hinir aumkunarverðu reyndust töluvert fleiri en menn hugðu og ummælin urðu vatn á myllu Trumps sem sagðist á leið til Washington til að sigrast á kerfinu (djúpríkinu), minnka ríkisumsvif og koma höfuðborginni aftur í tengsl við fólkið í landinu.

Þetta er rifjað upp hér nú, því skoðanakönnun MMR, sem birt var í gær, virðist hafa valdið nokkru uppnámi meðal skoðanaelítunnar hér á landi. Borgarfulltrúi Samfylkingarinnar hefur þegar stigið beint í holuna með ummælum á Twitter, sem vakið hafa athygli, og stjórnsýslufræðingurinn Haukur Arnþórsson, sem er í miklu uppháhaldi á Ríkisútvarpinu fyrir vinstrinnaðar bollaleggingar sínar, setti fram snöggsoðnar skýringar á gríðarlegri fylgisaukningu Miðflokksins á stjórnmálaumræðuna á fésbók og heimavöll sinn Sósíalistaspjallið, þar sem hann kemst nokkurn veginn að því að ástæðan sé sú að kjósendur séu heimskir — fólk sé fífl.

Haukur kemst að þeirri kostulegu niðurstöðu að mikið fylgi Miðflokksins skýrist meðal annars af því að flokkurinn styðjist við skoðanahernað stórvelda (einkum Rússlands) sem vilji veikja frelsi og frjálslyndi á Vesturlöndum og veikja ESB.

Svo kemur þessi dásamlega málsgrein:

„Rússarnir gefa úr mikið af vefupplýsingum á vefsetrum sér hliðhollum og við sjáum á hverjum degi tilvitnanir á Stjórnmálaspjalli Margrétar Friðriksdóttur og í Viljanum – í fölsuð rússnesk gögn. Útvarp Saga byggir oft málflutning á þessum gögnum líka og jafnvel þingmenn Miðflokksins.“

Það var og.

Nokkrir þingmanna Miðflokksins: Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Birgir Þórarinsson, Bergþór Ólason og varaþingmaðurinn Jón Þór Þorvaldsson.

Haukur segir jafnframt að skoðanahernaðurinn á Netinu sé orðinn stórhættulegur og þessi mikli talsmaður lýðræðisins bætir því við að við þessar aðstæður komi þjóðaratkvæðagreiðslur ekki lengur til álita, þar sem öll mál séu afflutt.

Semsé, best er að illa upplýstur almenningur láti elítuna um að stjórna, enda hafi hann ekkert vit á málum og geti jafnvel kosið vitlaust.

Hann segir jafnframt að samsæriskenningar flokksins um að menntamenn og vísindamenn séu að blekkja einfaldan almenning, gangi í fólk. Á heildina litið myndi þetta tiltölulega heildstæða heimssýn.

„Og þá er eftir að nefna að fátækur og lítið menntaður almenningur telur að hann verði að grípa í taumana. Sá sem minnst veit um stjórnmál telur að nú verði hann að bjarga málunum. Við sjáum þetta hjá gömlu körlunum á félagsmiðlunum – sem eru að hálfu leyti komnir úr takti við það hvernig nútíminn hugsar og virkar og eru dauðhræddir við allt nýtt,“ segir hann jafnframt og klykkir út með að líklega sé svo komið, að vinna þurfi gegn „þessu“ með viðamikilli fræðslu – „til að gera þá sem eru hræddir skaðlausa.“

Svo mörg voru þau orð stjórnsýslufræðingsins. Hans menn í pólitíkinni eru semsé bara að gera góða hluti og allt væri í standi, ef ekki væri fyrir gömlu karlana á samfélagsmiðlum og þá sem minnst vita um stjórnmálin, það vantar bara að hann kalli þessa kjósendur aumkunarverða.

Eitt er klárt. Með þessu hugarfari andstæðinga Miðflokksins mun hann bara halda áfram að safna fylgi. Og elítan mun ekki vita sitt rjúkandi ráð, heldur reyta hár sitt og skegg og kenna rússneskum samsæriskenningum í Viljanum um.

Gangi henni vel með það.