Skorað á Einar Þorsteinsson í Kópavogi

Fjölmargir sjálfstæðismenn í Kópavogi hafa undanfarna daga skorað á Einar Þorsteinsson, fyrrverandi fréttamann á RÚV, að gefa kost á sér í prófkjöri flokksins fyrir bæjar- og sveitarstjórnarkosningarnar næsta vor.

Eins og kunnugt er, tilkynnti bæjarstjórinn Ármann Kr. Ólafsson á dögunum, að hann gæfi ekki kost á sér til endurkjörs, en hann hefur verið bæj­ar­full­trúi allt frá árinu 1998 og bæj­ar­stjóri frá árinu 2012.

Þar með er allt í einu laus eitthvert mest spennandi pólitíska starf á Íslandi, eins og einn viðmælandi orðaði það, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur um áratugaskeið verið leiðandi afl í Kópavogi, oftar en ekki í slagtogi með Framsóknarflokknum.

Ýmis nöfn hafa verið nefnd til sögunnar, en prófkjör fer fram samkvæmt ákvörðun kjörnefndar, þann 12. mars næstkomandi.

Meðal þeirra sem nefndir hafa verið eru Sveinn Gíslason, formaður Breiðabliks, og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, en óvíst er hvort þau taki slaginn.

Athygli vekur að margir Sjálfstæðismenn nefna Einar Þorsteinsson, sem getið hefur sér gott orð sem fréttamaður og umsjónarmaður Kastljóssins á RÚV um árabil. Einar hætti störfum á dögunum, en kæmi óneitanlega sem mikil þungavigt inn í baráttuna, ef hann ákveður að svara kalli stuðningsmanna sinna.

Einar var á yngri árum um skeið formaður Týs, félags ungra sjálfstæðismanna í Kópavogi.

Bæjarfulltrúar í Kópavogi eru ellefu talsins og fékk Sjálfstæðisflokkurinn fimm menn kjörna í síðustu kosningum. Mynda þeir nú meirihluta með Framsóknarflokknum í Kópavogi, en bæjarfulltrúi hans er Birkir Jón Jónsson.