Skorar á VG að segja sig án tafar frá samstarfi við Samfylkingu í borginni

Taugar eru þandar á endaspretti kosningabaráttunnar og undanfarna daga hefur magnast upp mikil reiði meðal Vinstri grænna í borginni vegna úthringinga Samfylkingarfólks til kjósenda á vinstri vængnum.

Hermann Valsson, ferðamálafræðingur og fv. varaborgarfulltrúi Vinstri grænna, spyr á fésbókinni hvort engin takmörk séu fyrir lágkúru Samfylkingarinnar. Segir hann að meðal þeirra sem hringi út á vegum Samfylkingarinnar sé fyrrverandi formaður flokksins og á þá væntanlega við Jóhönnu Sigurðardóttur, fv. forsætisráðherra, og eina dagskrá þessara símtala sé að ata Vinstri græn skít og dreifa ósannindum.

Sparar Hermann hvergi stóru orðin og spyr Hallgrím Helgason, rithöfund og frambjóðanda Samfylkingarinnar, hvað honum finnist um slík vinnubrögð. „Ég er með símtölin ef þú vilt. Þvílík andskotans lágkúra. Samansafn af lygi og skít. Hélt að það væri eitthvað smá siðferði eftir, því miður hafði ég rangt fyrir mér,“ segir Hermann um leið og hann skorar á borgarfulltrúa Vinstri grænna að segja sig án tafar frá meirihlutasamstarfi með Samfylkingunni í borgarstjórn Reykjavíkur.