Slóvakar hlæja sig máttlausa og einangra hús sín með seðlum frá Íslandi

Bergþór Ólason, þingflokksformaður Miðflokksins, var eflaust ekki einn um að undrast fregnir í liðinni viku um kaup Íslendinga á aflátsbréfum frá Slóvakíu upp á 350 milljónir króna til að uppfylla skuldbindingar okkar Íslendinga í tengslum við Kýótó-bók­un­ina svo­kölluðu. En hann setur þetta furðumál í skemmtilegt samhengi í grein í Morgunblaðinu í dag, sem ástæða er til að draga fram hér.

„Kerf­is­fólkið kall­ar þetta víst kol­efnisein­ing­ar,“ segir Bergþór og heldur áfram: „Mig rak í rogastans þegar ég sá þessa fjár­málasnilld en klóraði mér svo í koll­in­um þegar ég sá hvernig í pott­inn var búið. Sam­kvæmt gild­andi fjár­lög­um hafði rík­is­stjórn­in áætlað að eyða 800 millj­ón­um af skatt­fé rík­is­ins til að kaupa er­lend­an gjald­eyri og fyr­ir hann af­láts­bréf (kol­efnisein­ing­ar) frá ríki sem stend­ur sig verr í lofts­lags­mál­um en Ísland ger­ir. Þetta þykir sum­um hin mesta snilld. Sjálf­um þykir mér þetta hljóma meira eins og hvert annað ponzi-svindl.

Á end­an­um voru það 350 millj­ón­ir sem þurfti til að fóðra svika­myll­una og 450 millj­óna „sparnaður“ sam­stund­is bók­færður í huga ráðherr­ans. Maður hlýt­ur að spyrja sig hvers vegna ráðherr­ann lagði ekki til 1.800 millj­óna út­gjöld til þess arna í fjár­lög­um yf­ir­stand­andi árs, þá hefði „sparnaður­inn“ orðið 1.450 millj­ón­ir og það mun­ar sko um það.

Auðvitað er mik­il­vægt að lág­marka tjón sem verður af vit­laus­um samn­ing­um sem gerðir eru á fyrri stig­um, en á meðan ráðherr­ann (með fé­lög­um sín­um í rík­is­stjórn­inni) þramm­ar í humátt á eft­ir þeim sem á und­an hon­um gegndu embætt­inu með nýj­um íþyngj­andi samn­ing­um og ákvörðunum sem fara gegn ís­lensk­um hags­mun­um, þá dug­ar það ekki sem af­sök­un.

Þegar ég skoðaði frétta­til­kynn­ing­una, sem frétt­in byggðist á, varð þetta enn áhuga­verðara. Fjár­mun­ina á meðal ann­ars að nota til að ein­angra hús í Slóvakíu. Hvert erum við kom­in þegar af­leiðing­in af því að standa sig allra þjóða best í fram­leiðslu á end­ur­nýj­an­legri orku er sú að ís­lensk­ir skatt­borg­ar­ar þurfa að und­ir­gang­ast þá refs­ingu að ein­angra hús í Slóvakíu með skatt­pen­ing­um sín­um!

Stein­inn tók svo úr þegar sagt var frá því á heimasíðu ráðuneyt­is­ins að þessi til­teknu af­láts­bréf frá Slóvakíu væru „nær eini kost­ur­inn sem fel­ur í sér styrk til verk­efna sem draga úr los­un“. – Bíddu, ha? Eini kost­ur­inn sem dreg­ur úr los­un? Hverj­ir voru hinir val­kost­irn­ir á hlaðborði kol­efnisein­inga sem stóðu til boða? Stuðning­ur við út­gáfu ljóðabóka um lofts­lags­mál? Hvaða rugl er þetta kerfi orðið?

Er það sjálf­stætt mark­mið stjórn­valda að láta hlæja að okk­ur í út­lönd­um? Eitt er að risaþjóðir eins og Banda­rík­in, Kína, Ind­land og fleiri hlæi að Evr­ópu, enda hvarflaði ekki að þeim að taka á sig skuld­bind­ing­ar vegna 2. tíma­bils Kýótó-bók­un­ar­inn­ar, en er ástæða til að láta ná­granna okk­ar í Evr­ópu, í þessu til­viki Slóvaka, hlæja sig mátt­lausa á meðan þeir ein­angra hús­in sín með seðlum frá Íslandi?“

Er von að spurt sé.