Smitast veiran bara í ferðamenn en ekki frá þeim?

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari undrast eins og fleiri þá ráðstöfun að setja Íslendinga sem koma frá hættusvæðum á Ítalíu í sóttkví, en aðrir farþegar sömu flugvéla valsi að vild um landið með tilheyrandi smithættu.

Hann gerir þetta að umtalsefni á fésbókinni í morgun og segir:

„Smitsjúkdómalæknir segir að það þurfi minni áhyggjur að hafa af smiti frá ferðamönnum hér á landi sem koma frá sýktum svæðum, þar sem þeir hafi minni samskipti við heimamenn. Þeir þurfi því ekki að fara í einangrun eins og íslenskir ferðamenn sem koma heim frá sýktum svæðum.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari.

Á það ekki við um átta af þessum níu Íslendingum sem eru smitaðir að þeir voru ferðamenn á Ítalíu með lítil samskipti við heimamenn, en smituðust samt?

Er það þá þannig að veiran smitast bara í ferðamenn en ekki frá þeim? Merkileg veira það.“