Söguleg atlaga Davíðs og Morgunblaðsins að Birni Bjarnasyni

Dyggir lesendur Morgunblaðsins hafa líklega misst andlitið ofan í grautarskálina nú í morgun við lestur á Reykjavíkurbréfi dagsins, þar sem Davíð Oddsson ritstjóri og fv. forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins beinir spjótum sínum að Birni Bjarnasyni, aldavini sínum og helsta stuðningsmanni um áratugaskeið.

Björn er sonur fyrrverandi ritstjóra blaðsins (Bjarna fv. forsætisráðherra) og er líka fyrrverandi aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins, skrifaði þar um árabil um erlend málefni og stjórnmál almennt, og hefur líklega aldrei fengið aðra eins sendingu frá gamla blaðinu sínu og í morgun.

Tilefnið er þriðji orkupakkinn sem nýlega var leiddur í íslensk lög með atkvæðagreiðslu á Alþingi. Björn er nú formaður nefndar á vegum utanríkisráðherra sem á að leggja mat á stöðu EES-samningsins, en hann gekk hart fram í umræðunni um orkupakkann og málsvörn sinni fyrir utanríkisráðherra.

Davíð skrifar í Reykjavíkurbréfi sínu að afstaða ríkisstjórnarinnar í orkupakkamálinu hafi verið „ófram­bæri­leg og niður­lægj­andi“.

„Aug­ljóst er að látið hef­ur verið und­an hót­un­um sem hvergi hef­ur þó verið upp­lýst um hvaðan komu. Rík­is­stjórn­in sjálf viður­kenndi í raun að hún lyppaðist niður fyr­ir hót­un­um um að gerði hún það ekki væri EES-samn­ing­ur­inn úr sög­unni. Ekk­ert í samn­ingn­um sjálf­um ýtti þó und­ir þá niður­stöðu!“

Svo skrifar hann og beinir máli sínu að Birni Bjarnasyni:

„En vand­inn er sá að þar sem þessi dusil­mennska náði fram að ganga er stjórn­skipu­leg­ur til­veru­rétt­ur EES-samn­ings­ins að engu gerður. Þeir sem fyrst­ir allra misstu fót­anna í þessu máli eru aug­ljós­lega al­gjör­lega van­hæf­ir til að leggja trú­verðugt mat á stöðu EES-samn­ings­ins. Og breyt­ir engu þótt þeir hafi nú verið í heilt ár hjá Guðlaugi Þór við að bera í bætifláka fyr­ir mála­til­búnað hans.“

Þar til nýlega hefði þótt algjörlega óhugsandi að sjá slíka breiðsíðu á hendur Birni Bjarnasyni á síðum Morgunblaðsins.

Algjörlega óhugsandi.