Sólarhringurinn þegar ríkisstjórnin hvarf…

Stjórnendur Icelandair (með atbeina Samtaka atvinnulífsins) lögðu allt undir þegar þeir sögðu flugfreyjum upp störfum á föstudag, tilkynntu að flugmenn myndu sinna öryggisgæslu um borð og leitað yrði eftir samningum við nýtt stéttarfélag.

Viðbrögðin voru fyrirsjáanleg, enda útspilið djarft. Ný verkalýðsforysta ærðist, samstaða brast meðal flugfreyja og strax heyrðust raddir um að betra væri að semja en missa vinnuna og ákveðinn trúnaðarbrestur varð millum stétta flugmanna og flugfreyja hjá félaginu, sem tímann sinn gæti tekið að lagfæra.

Stjórnendur flugfélagsins mátu það svo að gildandi kjarasamningar við flugfreyjur gætu ekki gengið í núverandi ástandi þar sem tekjufall er viðvarandi og framtíð ferðaþjónustu í fullkomnu uppnámi. Þeir voru sannfærðir um að samningaharka flugfreyja væri til komin í trausti þess að ríkið myndi alltaf forða félaginu frá gjaldþroti og tryggja störf fjölmennrar kvennastéttar.

Þess vegna var þeim boðum komið til ríkisstjórnarinnar að blanda sér hvergi í deiluna á svo viðkvæmum tímapunkti. Og fréttamenn fjölmiðla grínuðust með það í gær, að ráðherrar í ríkisstjórn sem ekki hefur sent frá sér minnisblað eða tilkynningu undanfarið án þess að boða til blaðamannafundar í beinni útsendingu, hafi allt í einu horfið af yfirborði jarðar. Hver og einn og einasti.

Þetta var sólarhringurinn þegar ríkisstjórnin hvarf og Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari fékk boð um það, þar sem hann var staddur í fríi úti á landi, að hann yrði að leysa þetta. Sátti flaug beint til borgarinnar, kallaði báða aðila á sinn fund og skrifað var undir nýjan samning í nótt.

Allir varpa öndinni léttar. Ekki síst ráðherrarnir sem líklegt er að skríði út úr holunum sínum hvað úr hverju…