Sólveig Anna fer fram

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður Eflingar, hyggst bjóða sig aftur fram til formennsku í félaginu. Líklegt er að hún kynni þessi áform um eða strax eftir helgi.

Viljinn hefur heimildir um þetta úr herbúðum stuðningsmanna Sólveigar Önnu og einnig þeim sem styðja lista uppstillingarnefndar.

Eins og kunnugt er, sagði Sólveig Anna af sér formennsku í fyrra og kvaðst hafa verið hrakin úr embætti af klíku á skrifstofu félagsins sem ekki hefði sætt sig við lýðræðislegan vilja félagsmanna. Stuttu seinna sagði svo Viðar Þorsteinsson upp störfum sem framkvæmdastjóri félagsins.

Trúnaðarráð Eflingar-stéttarfélags samþykkti á fundi sínum 13. janúar sl. svohljóðandi tillögu uppstillinganefndar um skipun í þær trúnaðarstöður sem til kjörs eru nú skv. 10. gr. laga félagsins.

Ólöf Helga Adolfsdóttir, formaður (2022-2024)
Eva Ágústsdóttir, gjaldkeri (2022-2024)
Aija Baldina (2022-2024)
Friðjón Víðisson (2022-2024)
Þorleifur Jón Hreiðarsson (2022-2024)
Mateusz Kowalczyk (2022-2024)
Anna Steina Finnbogadóttir (2022-2024)
Felix Kofi Adjahoe (2022-2024)
Marcin Dziopa (2022-2023 – ath. tæki sæti Ólafar Helgu í stjórninni 2021-2023)

Skoðunarmenn reikninga:

Leó Reynir Ólason (2022-2024)
Thelma Brynjólfsdóttir (2022-2024)
Fríða Hammer, varamaður (2022-2024)

Fram kemur á vefsíðu Eflingar, að hyggist einhver/einhverjir bjóða fram annan lista með tillögum um val í embætti skv. 10. gr. laga félagsins skuli honum skila eigi síðar en kl. 8:59 þann 2. febrúar til fulltrúa kjörstjórnar á skrifstofu Eflingar-stéttarfélags að Guðrúnartúni 1, 105 Reykjavík.

Samkvæmt 23. gr. laga félagsins skulu lista fylgja meðmæli a.m.k. 120 félagsmanna. Það er á ábyrgð forsvarsmanna lista að ganga úr skugga um að frambjóðendur njóti kjörgengis og að allir meðmælendur séu fullgildir félagsmenn Eflingar-stéttarfélags.