Sósíalistar brosa út að eyrum enda tekur ríkið reikninginn

Margt má segja um tímamótasamningana sem skrifað var undir í gær, sem voru mikilvægir enda dýrmætt að samið sé til fjögurra ára og grundvöllur skapist fyrir stöðugra efnahagsumhverfi, minnkandi verðbólgu og lægri vöxtum.

Sigríður Margrét Oddsdóttir sýndi þrautseigju og seiglu við samningaborðið og hélt sínu striki, enda þótt viðsemjendurnir rykju reglulega út og skelltu hurðum. Hennar markmið var eitt og bara eitt, að landa langtímasamingum og gefa skynsamlegan tón inn í alla samninga sem á eftir koma. Og að láta ríkið fjármagna brúsann er svo annað afrek og alveg sérstakur kapítuli út af fyrir sig.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra tók algjöra forystu í málinu fyrir hönd ríkisvaldsins, setti saman félagsmálapakka í anda Vinstri grænna (og raunar beint að eigin frumkvæði úr stefnu flokksins, eins og Viljinn sagði frá í gær) og framlag hins opinbera til að liðka fyrir samningum, er ríflegra en áður hefur sést og í reynd rosalega mikið.

80 milljarðar takk fyrir.

Enda var ljóst við undirritun í gær, að vinstra fólk á borð við Viðar Þorsteinsson og Sólveigu Önnu Jónsdóttur í Eflingu og Sósíalistaflokknum og Stefán Ólafsson prófessor emeritus, brostu hreinlega út að eyrum.

Það ætti undir öllum eðlilegum kringumstæðum að vera eitt og sér nægilegt umhugsunarefni fyrir Sjálfstæðisflokkinn, flokkinn sem stýrir fjármálaráðuneytinu. En þar virðist fólk hreinlega hætt í pólitík; glímir líklega við alvarlega kulnun í starfi og munu því halda áfram að skrifa greinar um lækkun skatta og minni ríkisafskipti, en framkvæma svo allt annað. Alltaf, alla daga ársins.

Því það allra mikilvægasta af öllu mikilvægu er að halda ráðherrastólunum, skítt með hugmyndafræðina.

Þessu fagna þess vegna auðvitað allir vinstri menn. En ekki hvað? Af hverju ættu þeir ekki að gera það?