Spilling milli Kjarnans og RÚV þrífst fyrir opnum tjöldum

Tveir hluthafar í Kjarnanum ræddu saman í Silfrinu á sunnudag. Ritstjórinn og fyrrverandi aðstoðarritstjórinn sem var umsjónarmaður þáttarins.

„Sum spilling þrífst fyrir opnum tjöldum og misnotkun á opinberu fé og stofnunum einnig. Enginn segir neitt. Það þykir t.d. ekkert nema eðlilegt að Fanney Birna Jónsdóttir, sem er ágætur þáttastjórnandi Silfursins, skuli tvívegis meðan á kórónufaraldrinum stendur, kalla Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans til viðtals í þættinum.“

Þetta skrifar Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri ViðskiptaMoggans, á fésbókina þar sem hann gerir ítrekuð viðtöl við ritstjóra Kjarnans í Ríkisútvarpinu að umtalsefni, sem og fasta pistla hans.

„En hví geri ég athugasemd við þetta. Fyrir því eru tvær skýringar. Í fyrsta lagi sú augljósa að Kjarninn er vefsíða sem hefur litla sem enga skírskotun í íslensku samfélagi. Lesturinn á miðlinum er svo lítill að eigendur hans þora ekki að birta mælingar á honum. Í öðru lagi er Fanney Birna, starfsmaður Ríkisútvarpsins, hluthafi í Kjarnanum líkt og fram kemur á heimasíðu Fjölmiðlanefndar. Um skamman tíma var hún einnig aðstoðarritstjóri vefsins.

Hún er með öðrum orðum að taka viðtöl við ritstjóra einkamiðils sem hún hefur sjálf hagsmuan að gæta gagnvart. Hvernig í ósköpunum getur það staðist hlutleysiskröfur þær sem gerðar eru til RÚV?

Stefán Einar Stefánsson, ritstjóri Viðskiptamoggans.

Þórður Snær er duglegri en nokkur annar Íslendingur um þessar mundir að benda á spillingu og það sem honum þykja vera alvarlegar brotalamir á samfélagsgerðinni. Af hverju sér hann ekki hversu sjúk þessi sena er?

Taka mætti saman hvert aðgengi hans að Ríkisútvarpinu er, t.d. í vikulegum innslögum á Rás 1. Hvað veldur því að hið hlutlausa RÚV ýtir svo mjög undir Kjarnann sem engu máli skiptir þegar kemur að raunverulegri fréttaumfjöllun í landinu?

Ætli það tengist stjórnmálaskoðunum þeim sem ritstjórinn og RÚV-fólkið deilir í ríkum mæli?“ bætir hann við.