Staða Sjálfstæðisflokksins meðal ungs fólks aldrei verið veikari

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Þegar Sjálfstæðismenn halda upp á 90 ára afmælið í maí komast þeir vart hjá því að svara spurningum um framtíð flokksins,“ segir Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í vikulegri grein sinni í Morgunblaðinu í dag.

„Á landsvísu á flokkurinn töluvert í land að endurheimta fyrri styrk. Margir leita skýringa til hruns fjármálakerfisins og eftirleik þess. Ekki skal gert lítið úr því en þróunin hófst miklu fyrr. Höfuðvígi flokksins – Reykjavík – féll löngu áður. Þótt tekist hafi að spyrna nokkuð við fótum í síðustu borgarstjórnarkosningum er fylgið langt undir sögulegu meðaltali. Staða meðal ungs fólk – ekki síst í Reykjavík – hefur aldrei verið veikari. Það er af það sem áður var þegar ungir kjósendur löðuðust að Sjálfstæðisflokknum, kannski ekki síst vegna þess hve mikil áhrif ungt fólk hafði á störf og stefnu flokksins – allt frá hugmyndum um valddreifingu, opna stjórnsýslu og upplýsingafrelsi, til raunverulegs valfrelsis til menntunar, búsetu og starfa.

Eitt er víst. Sjálfstæðisflokknum hefur ekki tekist að nýta sér góðan árangur sem náðst hefur í efnahagsmálum frá árinu 2013, þegar flokkurinn myndaði ríkisstjórn með Framsóknarflokknum. Skuldir ríkisins hafa snarlækkað og þannig er hætt að ganga á lífskjör komandi kynslóða. Við erum þvert á móti farin að byggja aftur upp. Erlend staða þjóðarbúsins hefur aldrei verið betri. Kaupmáttur hefur aldrei verið meiri, atvinnuleysi er lítið og verðlag hefur verið stöðugt. Lífskjör eru með þeim bestu sem þekkjast í heiminum. Ísland er eitt opnasta hagkerfi heims í vöruviðskiptum samkvæmt úttekt Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

Á 90 ára afmælinu verðum við, sem skipum sveit kjörinna fulltrúa flokksins á þingi og sveitarstjórnum, að viðurkenna að okkur hefur ekki tekist að endurnýja sambandið við marga kjósendur,“ segir Óli Björn.