Það er furðustutt í bæjar- og sveitastjórnarkosningar (enda voru þingkosningarnar á óvenjulegum árstíma) og ekki skrítið að vangaveltur séu komnar af stað um framboðsmál hjá einstökum flokkum og stjórnmálamönnum. Viljinn ætlar að spá í spilin næstu vikurnar í borgarpólitíkinni og einnig í nokkrum öðrum sveitarfélögum hér á landi:
- Stóra vafamálið nú er hvort Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gefur kost á sér áfram. Hann er í reynd holdgervingur meirihlutans og í því felast bæði styrkleikar og veikleikar. Samfylkingin þarf ekki að hafa miklar áhyggjur meðan hann er í brúnni, því flestir stuðningsmenn meirihlutans samsama sig um leið við hann, en víðtæk óánægja meðal borgarbúa með margt í borgarkerfinu hefur að sama skapi persónugerst í honum hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.
- Dagur er þó gríðarlega sterkur stjórnmálamaður, um það skyldi enginn efast, og hann ræður sjálfur för þegar kemur að eigin pólitískum vitjunartíma. Ef hann lætur gott heita, eins og ýmsir gera skóna, mun pólitískur styrkur hans innan Samfylkingarinnar snaraukast, því fáir í þeim flokki státa af hans þungavigt, ef nokkur. Þó er auðvitað ekkert víst að hann hefði hug á að spreyta sig í landsmálunum yfir höfuð og langt í næstu kosningar. En innkoma hans í landsmálin yrðu sannarlega mikil tíðindi og flokkurinn þar með kominn með raunverulegt forsætisráðherraefni.
- En brotthvarf hans myndi skapa mikið tómarúm innan Samfylkingarinnar og með allri virðingu fyrir öðrum í borgarstjórnarhópi Samfylkingarinnar er vandséð að auðfundinn sé kandídat af nægilegum styrk til að taka við.
- Þótt borgarstjórinn sé umdeildur, er ekkert að því í sjálfu sér eins og forveri hans Davíð Oddsson var ágætt dæmi um. Samfylkingin verður tvímælalaust sterkari í næstu kosningum með hann á oddinum heldur en ekki og pólitísk reynsla hans og klókindi gera andstæðingunum erfitt fyrir.
- Pólitísk hyggindi gætu þess vegna á endanum orðið til þess að tilkynning berist von bráðar um að Dagur B. Eggertsson sé á útleið úr borgarpólitíkinni. Það er betra að hætta í styrkleika en veikleika og ferill hans í borgarstjórn er orðinn langur. Ingibjörg Sólrún fékk hann sem ungan lækni og höfund þriggja binda stórvirkis um Steingrím Hermannsson, í framboð fyrir Reykjavíkurlistann árið 2002. Eftir formennsku í skipulagsráði varð hann oddviti Samfylkingarinnar fjórum árum síðar, varð borgarstjóri í hundrað daga undir lok árs 2007 og fram í ársbyrjun 2008, svo formaður borgarráðs í tíð Besta flokksins og Jóns Gnarr sem borgarstjóra og svo aftur sjálfur borgarstjóri undanfarin ríflega sjö ár. Þetta er magnaður ferill hjá ekki eldri manni, en á næsta ári verða 20 ár frá því Dagur fór í borgarmálin og spurning hvort hann nýti þau tímamót til að láta gott heita.
Ábendingar og upplýsingar sendist á: viljinn@viljinn.is