Stærsti flokkurinn í rúst og fábjánabandalögin fara með himinskautum

Sigmundur Davíð með kaffibolla á þingi á dögunum. Einar Kárason í forgrunni. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Einar Kárason, rithöfundur og varaþingmaður Samfylkingarinnar, fer mikinn á fésbókinni í umræðum um þriðja orkupakkann og segir:

„Þegar rugludallar í Noregi, sem kalla sig „Nej til EU“ föttuðu að þeir hefðu tapað einhverjum slag þar heima, ákváðu þeir að setja peninga (sem þeir eiga nóg af) í að gera Íslendinga að fíflum.“

Og hann bætir við:

„Og það tókst; stærsti flokkurinn hér heima er nú í rúst, og fábjánabandalögin fara með himinskautum.“

Á vef Orkunnar okkar hefur þegar verið upplýst af þessu tilefni, að ekki ein króna hafi runnið til samtakanna frá Nej til EU í Noregi.

Ummæli rithöfundarins um fábjánabandalögin minna óneitanlega á frægt tilsvar Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrata í Bandaríkjunum, sem sagði stuðningsmenn Donalds Trump, keppinautar síns, vera deplorables, eða aumkunarverða.