Björn Bjarnason fv. ráðherra vekur athygli á nýútkominni bók Péturs Hrafns Árnasonar (Þórarinssonar) sagnfræðings um sögu Vinstri hreyfingarinnar –– græns framboðs á fyrstu tuttugu starfsárum flokksins 1999-2019 á vefsíðu sinni.
Í bókinni Hreyfing rauð og græn – saga VG 1999 til 2019 er sögð saga hreyfingar „sem umbreyttist frá því að vera lítill, áberandi andófsflokkur í að verða sá næststærsti á Alþingi og leiðandi í ríkisstjórn,“ svo vitnað sé til kynningar á vefsíðu flokksins. Í bókinni er m.a. leitast við að segja frá hatrömmum innanflokkserjum í tíð vinstri stjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar á árunum eftir hrun, þegar formaðurinn Steingrímur J. er fjármálaráðherra.
„Á fundi 13. apríl [2011] var, samkvæmt tillögu Katrínar Jakobsdóttur, ákveðið að fá vinnustaðasálfræðing til að aðstoða hópinn [þingflokk VG] við að bæta andrúmsloftið. En því var „tekið misvel í þingflokknum og óttaðist ég að viðkomandi hafi sjálfur þurft að leita sér aðstoðar eftir að hafa kynnst þingflokki VG,“ sagði Katrín Jakobsdóttir við bókarhöfund í maí 2018 (s. 232). Og enn hafði formaður VG þessi orð um ástandið: „Þetta líktist einna helst langri spennusenu úr Indiana Jones-mynd þar sem einn rúllandi steinninn á eftir öðrum sótti að manni“.
Rifjað er aukinheldur upp brotthvarf þingflokksformannsins Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur sem var gerð áhrifalaus meðan hún var í fæðingarorlofi:
Steingrímur J. sagði henni við komuna úr orlofinu í apríl 2011 að Árni Þór gæti ekki hugsað sér að víkja úr formannsstólnum en hún ætti að segja út á við að hún vildi heldur sinna börnunum betur! Um þetta segir bókarhöfundur: „Þessi gjörningur [að fella Guðfríði] vakti mikil viðbrögð bæði innan flokks og í samfélaginu og fannst mörgum súrt að kyngja því að flokkur sem kenndi sig við kvenfrelsi skyldi ekki hafa í heiðri anda fæðingarorlofslaganna.“ (S. 231.)
Þess er svo auðvitað þetta að bæta, að sami Steingrímur J. er nú forseti Alþingis og lýsir brúnaþungur reglulega áhyggjum sínum af kvenfrelsisbaráttunni og jafnréttismálum almennt…