Sterk innkoma

Óhætt er að segja að Friðrik Jónsson hafi átt sterka innkomu sem nýr formaður Bandalags háskólamanna að undanförnu. Formaðurinn er áberandi í fjölmiðlum, hefur greinilega lagt áherslu á að setja sig inn í málin og virðist hafa metnað til að leggja upp framtíðarsýn, sem er hvort tveggja mikilvægt og virðingarvert.

Friðrik hefur getið sér gott orð í utanríkisþjónustunni undanfarin ár, en í opinberri umræðu og réttindamálum opinberra starfsmanna virðist hann kominn á hárrétta hillu. Gott dæmi um það var viðtal við hann í sjónvarpsfréttum nýskeð, þar sem farsóttin var til umræðu sem oftar og mikilvægi þess að fólk komi ekki hálflasið eða með kvefeinkenni til vinnu, enda of mörg dæmi um það með tilheyrandi smithættu og afleiðingum fyrir samfélagið.

Ýmis stéttarfélög sendu fjármálaráðherra nýverið erindi vegna þessa, þar sem kallað var eftir því að réttur til veikinda í sóttkví yrði skýrður betur. Friðrik hvatti þar landsmenn til að nýta sinn veikindarétt, væri minnsta ástæða til:

„Við eigum veikindarétt, bæði fyrir okkur sjálf og fyrir börnin okkar. Verum heima, ekki vera að mæta til vinnu veik eða með veikindaeinkenni, og til að kjarna þetta; hóstum heima og nýtum okkur réttinn,“ sagði formaðurinn glaðbeittur og er eiginlega ekki hægt að orða það betur…