Nú fjarar hins vegar undan lýðræði víða um lönd, þar með talið hér á landi. Ástæðan er einkum sú að stjórnmálamenn gefa frá sér sífellt meiri völd og við tekur aukið kerfisræði þar sem ókjörnum fulltrúum er ætlað að stjórna málum.
Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í pistli á heimasíðu sinni. Hann segir gallann við þetta vera þann, að með þessu séu stjórnmálamenn að gefa það sem þeir eiga ekki.
„Í lýðveldi eru völdin eign lýðsins sem veitir stjórnmálamönnum aðeins umboð til að fara með þau um tíma,“ segir hann.
„Yfirfærsla valds til embættismanna, sérfræðinga, stofnana o.s.frv. er jafnan rökstudd með því að þannig verði ákvarðanirnar „faglegri“.
Þetta endurómar rök þeirra sem fyrr á öldum leituðust við að skýra hvers vegna hin róttæka hugmynd um lýðræði væri varasöm. Að þeirra mati var hagsmunum almennings best borgið með því að menn sem væru sérfræðingar í að stjórna og hefðu betri þekkingu en almúginn héldu um valdataumana,“ bætir hann við.
Óttinn við að vera umdeildur
„Stjórnmálamenn í lýðræðisríkjum eru jafnan umdeildir og því auðvelt skotmark. Einfaldast er því fyrir stjórnmálamenn að skora sjálfsmörk. Tala þannig að þeir séu faglegir fremur en pólitískir. „Pólitísk ákvörðun“ er nú nánast orðið skammaryrði á meðan „fagleg ákvörðun“ þykir ákaflega jákvæð. Ákvörðun tekin með vísan til þeirra loforða sem kjósendum voru gefin fær þannig neikvæðara yfirbragð en ákvörðun tekin af þeim sem kjósendur hafa ekkert vald yfir.
Valdaafsal stjórnmálamanna nútímans ræðst hins vegar ekki aðeins af hugmyndinni um að embættismenn og sérfræðingar séu betur til þess fallnir að stjórna en fulltrúar almennings. Ótti stjórnmálamanna við að stjórna ýtir líka mjög undir þessa þróun. Þ.e. hræðslan við að taka ákvörðun sem ekki muni ganga upp eða orki tvímælis og kalli á gagnrýni. Þá er betra að hafa skjól í því að segjast aðeins vera að framfylgja „faglegri niðurstöðu“. Reynist ákvarðanirnar illa er þá alltaf hægt að benda á að faglegum ferlum hafi verið fylgt. Þannig beri í raun enginn ábyrgð á afleiðingunum.
Ein af afleiðingum tilfærslunnar frá lýðræði til kerfisræðis er sú að pólitísk átök snúast síður um rökræðu um pólitísk álitaefni. Þau eru öll leyst af fagmönnunum. Þess í stað fara pólitísku átökin að snúast fyrst og fremst um ímynd einstaklinga og flokka og verða fyrir vikið illgjarnari og leiðinlegri,“ segir Sigmundur Davíð ennfremur.