Stórtíðindi í samhljómi SA og ASÍ um neyðarástand á húsnæðismarkaði

Sigríður Margrét Oddsdóttir framkvæmdastjóri SA. / SA.

Ástæða er til að vekja athygli á afar áhugaverðu spjalli Sigurjóns Magnúsar Egilssonar við þau Sigríði Margréti Oddsdóttur, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, og Finnbjörns A. Hermannssonar, forseta ASÍ, á Samstöðinni í gær í þættinum Synir Egils.

Þar kvað við nýjan og ferskan tón hjá nýrri forystu SA varðandi húsnæðismálin, svo mjög að forseti ASÍ sagðist á einum tímapunkti geta tekið undir hvert orð í málflutningi Sigríðar Margrétar.

Hinn ferski tónn fólst einnig í því að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins var ekkert að fegra stöðuna eða teikna upp glansmyndir; hún var mætt þarna eins og manneskjan sem er komin til þess að skúra gólf og taka til eftir gott partý, hún sagði að aðalatriðið í næstu samningum verði að verja kaupmáttinn eða minnka að minnsta kosti það tjón sem hann kunni að verða fyrir og að vaxtakostnaður og verðbólga sé að sliga bæði heimilin og fyrirtækin.

„Það gistir enginn í glærukynningum,“ sagði Sigríður Margrét sem óhætt er að segja að fari vel af stað. Þetta viðtal markaði eiginlega stórtíðindi fyrir komandi kjaravetur.