Stóru byssurnar teknar fram til að rétta af innanflokksátök í Samfylkingunni

Óhætt er að segja að allt hafi logað stafnanna milli innan Samfylkingarinnar undanfarna daga eftir stefnubreytingu Kristrúnar Frostadóttur, formanns flokksins, í útlendinga- og hælisleitendamálum. Fjölmargir flokksmenn hafa á samskiptamiðlum lýst sárum vonbrigðum með yfirlýsingar Kristrúnar, en aðrir fagnað þeim.

Spunameistarar flokksins hafa dregið fram stóru byssurnar með því að tveir fyrrverandi formenn flokksins, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Össur Skarphéðinsson, svilfólkið sem sjaldnast er sammála um neitt, hafa sett fram þau sjónarmið að stefnubreytingin hafi alls ekki verið nein stefnubreyting, heldur eitthvað allt annað og alls ekki nein beygja til hægri í takt við vaxandi áhyggjur landsmanna af stjórnleysi í málaflokknum.

„Urdann, bíttann,“ segir Ingibjörg Sólrún og undrast viðbrögð við orðum Kristrúnar. „Hún var ekki fyrr búin að ljúka orðinu en einhverjir höfðu fundið það út að þarna hefði formaður Samfylkingarinnar mælt af munni fram alveg nýja og harðari stefnu í málefnum innflytjenda. Samt voru þetta bara almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála þar sem grunnstefið var sanngirni, mannúð og sjálfbærni.“

Ingibjörg Sólrun Gísladóttir.

Bara almennt orðaðar vangaveltur

Það er einmitt það. Bara „almennt orðaðar vangaveltur“ um ýmsar hliðar „þessara“ mála. Svo bætti Ingibjörg Sólrún því við að margar hliðar væru á þessu „flókna máli“ og jafnðarmenn búi bæði yfir þeirri reynslu og þekkingu sem þurfi að taka „umræðuna“. Það eru einmitt viðbrögðin sem Sigmundur Davíð, Guðrún Hafsteinsdóttir og Jón Gunnarsson hafa fengið þegar þau hafa leyft sér „að taka umræðuna“ um þessi mál.

„Látum ekki siga okkur hverju á annað,“ bætti Ingibjörg Sólrún við í tilraun til að lægja öldur innan flokksins, enda blasir við öllum, nema kannski Ólafi Þ. Harðarsyni prófessor emeritus, að Kristrún var að boða miklu harðari stefnu en Samfylkingin hefur fylgt á undanförnum árum og þarf ekki annað en skoða skrif Helgu Völu Helgadóttur, fv. þingmanns flokksins, á samskiptamiðlum síðustu daga, til að sannfærast um það.

En spurningarnar sem vakna eru þessar: Fór Kristrún fram úr sér með yfirlýsingum sínum, eða var þetta meðvitað skref til að bregðast við vaxandi áhyggjum og halda í lausafylgi sem skolað hafði á fjörur flokksins í skoðanakönnunum? Óánægjufylgi frá VG, Framsóknarflokki og kannski fleirum?

Alls ekkert beygja til hægri

Einn helsti ráðgjafi hins nýja formanns Samfylkingarinnar, sjálfur Össur Skarphéðinsson hafnar því alfarið að hún sé að flytja flokkinn til hægri, í von um atkvæði.

„Í fullri vinsemd – benda skoðanakannanir til að það sé einhver tækifærissinnuð þörf á því? Flokkurinn fer með himinskautum. Kristrún þarf ekki að selja neitt af stefnu flokksins til að afla atkvæða,“ segir hann og reynir svo í löngu máli að útskýra að stefna Samfylkingarinnar hafi verið svona og hinsegin í hælisleitendamálum, þegar allir sem fylgst hafa með ræðum Loga Einarssonar og Oddnýjar Harðardóttur, auk Helgu Völu, á undanförnum árum, vita betur.

Hins vegar hittir Össur naglann á höfuðið þegar kemur að gagnrýni á stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málum. Það er allsherjar stjórnleysi í gangi og alveg átakanlegur skortur á plani af nokkurri sort.

Dr. Össur Skarphéðinsson, fv. utanríkisráðherra.

„Opin eða lokuð landamæri? Við erum með opin landamæri við lönd Evrópusambandsins og sækjum þangað tugþúsundir til starfa innan atvinnulífsins hér á landi. Ég hika ekki við að fullyrða að útlendingar standa undir miklu stærri hluta af velferð Íslands en flestir gera sér grein fyrir, og án þeirra væri verðbólga hér miklu hærri og án efa vextir líka. Hvar væri byggingarstarfsemi og ferðaþjónusta stödd án þeirra? Eða fiskvinnsla? Meðal mistaka Sjálfstæðisflokksins er að hafa ekki náð að skapa farveg til að koma þeim sem hér fá alþjóðlega vernd betur inn í samfélagið, ekki síst atvinnulífið, þeim og okkur til hagsbóta.

„Þegar Kristrún tekur við“

Hitt er svo annað, að það er líka partur af klúðri Sjálfstæðisflokksins að hafa ekki lagt í þéttingu kerfa, s.s. heilbrigðis- , húsnæðis- og menntakerfa, sem gera okkur kleift að taka nægilega vel á móti þeim sem hingað koma. Gildir einu hvort það er vegna starfa í krafti hins sameiginlega evrópska vinnumarkaðar, undan stríði einsog í Úkraínu og Gaza, eða af öðrum ástæðum.

Í blálokin – það er einfaldlega dapurleg staðreynd að í samfleyttri tíð sjö dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins hefur flokkurinn gjörsamlega misst stjórn á málaflokknum. Vegna þessa eru aðstæðurnar gjörbreyttar frá því hann tók við dómsmálaráðuneytinu. Ný ríkisstjórn mun því taka við fullkomnu ófremdarástandi. Í reynd þarf að móta sérstaka stefnu um hvernig hægt er að leysa úr þeim vanda sem ný ríkisstjórn mun standa frammi fyrir og er arfleifð Sjálfstæðisflokksins eftir meira en áratug með dómsmálaráðuneytið á sína ábyrgð,“ bætir Össur við og vill fremur skilgreina orð Kristrúnar sem „innlegg í stefnumótun“ til að greiða úr klúðrum Sjálfstæðisflokksins – sem á þessu sviði hafi reynst bæði „úthalds- og úrræðalaus“. Og líklega verði Sjálfstæðisflokkurinn „hvíldinni feginn þegar Kristrún tekur við“.