Störukeppnin mikla

Frá síðasta ríkisráðsfundi á Bessastöðum.

Nú stendur yfir mikil störukeppni. Flugumferðarstjórar ætla aftur í verkfall næstkomandi miðvikudag. Ljóst er að það myndi valda verulegu raski á flugi til og frá landinu dagana fyrir jól og stjórnendur flugfélaganna hafa sagt að ólíklegt sé að allir komist heim til sín fyrir hátíðarnar ef fram heldur sem horfir.

Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir að ekki komi til greina að fallast á kröfur Félags íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) enda séu þær alveg út úr kortinu (eða utan loftrýmis).

Ekki hefur orðið vart mikils stuðnings við kröfur flugumferðarstjóra (sem samkvæmt fréttum nema 25-27% hækkun) frá restinni af verkalýðshreyfingunni, enda ljóst að ef samið yrði við hálaunastétt um verulegar hækkanir myndi það setja stöðuna á vinnumarkaði í fullkomið uppnám.

Samtök atvinnulífsins gætu vel leyst málið, samið á morgun og gengið að kröfum flugumferðarstjóra, en um leið væri ný þjóðarsátt úr myndinni og að ná niður verðbólgunni og vöxtunum. Þess vegna er í reynd útilokað fyrir Sigríði Margréti Oddsdóttur og félaga í Borgartúninu, að verða við kröfum um kjarabætur sem eru mjög úr takti við þær launabreytingar sem horft er til að séu raunhæfar á nýju ári.

Að sama skapi hefur það strokið mörgum öfugt að aðgerðirnar virðast fyrst og fremst ætlaðar til að valda Icelandair og PLAY skaða, en bæði félögin eru að rétta úr kútnum, eða komast á legg, eftir heimsfaraldur covid, og nú nýlega hafa félögin orðið fyrir skakkaföllum vegna jarðhræringa á Reykjanesi. Mörgum þykir því nóg um.

Þetta er því snúin staða og því er starað sem aldrei fyrr.

En störukeppnin virðist þó ekki aðeins vera á milli SA og FÍF og eftir atvikum annarra félaga í verkalýðshreyfingunni. Nú virðist ljóst að einu sinni sem oftar ríki störukeppni innan ríkisstjórnarinnar.

Það vakti athygli að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hleyptu þinginu í jólahlé án þess svo mikið sem að minnast á aðgerðir til að binda endi á verkfallið. Samt duldist engum hver þróunin væri.

Eftir að þingið hafði lokið störfum birtist viðtal við innviðaráðherra í Morgunblaðinu þar sem fram kom að í ráðuneytinu væru tilbúin lög til að grípa inn í ástandið. Í síðdegisviðtali á Bylgjunni kom þó í ljós að þar væri aðeins um að ræða almenna forskrift að lögum til að binda endi á verkföll og ekkert lægi fyrir um hvort ríkisstjórnin hugsaði sér til hreyfings í málinu.

Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins og VG tjá sig ekki um málið og því ólíklegt að það ríki samstaða þeirra á milli.

Skammur tími er til stefnu því ef verkfallsaðgerðir hefjast á miðvikudag er ólíklegt að nokkuð gerist fyrr en á milli jóla og nýárs en þá gæti verið von á öðru verkfalli sem gæti sett áramótaflugið í uppnám.

Þingmenn Miðflokksins hafa lýst sig reiðubúna til að styðja aðgerðir stjórnvalda til að bjarga jólafríum landsmanna. Þetta staðfesti Bergþór Ólason þingflokksformaður við fréttavef Morgunblaðsins og það sama gerði Guðmundur Ingi Kristinsson þingflokksformaður Flokks fólksins.

Kostnaður vegna deilunnar nemur þegar milljörðum króna. Ljóst er að enginn vilji er til þess að semja við FÍF á þeim nótum sem þeir fara fram á. Um leið getur þó reynst erfitt fyrir flugumferðarstjóra að bakka úr því sem komið er.

Getur verið að nú bíði flugumferðarstjórar, eins og aðrir, eftir því að ríkisvaldið grípi inn í og höggvi á hnútinn?

Spurningin sem eftir stendur er hvort ríkisstjórnin treysti sér til að taka af skarið um það, í heild, eða að hluta. Þjóðhagslegir hagsmunir eru að veði í margvíslegum skilningi og tækifæri fyrir forystumenn stjórnarflokkanna til að sýna að minnsta kosti viðleitni til þess að eitthvað bendi til þess að ábyrg ríkisstjórn sé starfandi í landinu.

En klukkan tifar…