Stríðið í Úkraínu er rétt að byrja – og stefnir í eina átt

Albert Jónsson, áður: sendiherra Íslands í Rússlandi og Bandaríkjunum, ráðgjafi forsætis- og utanríkisráðherra í utanríkismálum, framkvæmdastjóri öryggismálanefndar og stundakennari við Háskóla Íslands.

„Stríðið í Úkrænu er rétt að byrja – og stefnir í eina átt,“ segir Albert Jónsson, fv. sendiherra og sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum, í færslu sem hann ritar á vefsvæði sitt um alþjóðastjórnmál. Hann dregur upp dökka mynd af því sem er framundan og telur upp fimm punkta, máli sínu til stuðnings:

  1. Á næstu sólarhringum mun rússneski herinn að líkindum koma sér fyrir umhverfis höfuðborgina Kyiv. Ekkert virðist geta komið í veg fyrir það nema vopnahléssamningar. Eins og sést af gervihnattamyndum eru liðsflutningar Rússlandshers til höfuðborgarinnar 60 – 70 kílómetra langir – skriðdekar, stórskotalið, brynvarðir liðsflutningavagnar. Þessi langa lest sem fer eftir vegum norður af borginni sýnir ofureflið en einnig, sem miklu skiptir, að Rússar telja sig ekki hafa ástæðu til að óttast árásir á liðið – hvorki úr lofti né af landi. Og það er líklega rétt mat.
  2. Yfirburðir Rússa í lofti og á láði fela einnig í sér að afar erfitt, ef ekki útilokað, verður að koma vopnum og vistum frá Bandaríkjunum og ESB ríkjum til Úkrænu. Fyrir liggur að gefendurnir geta ekki komið vopnunum til þiggjendanna því tilraun til slíks fæli auðvitað í sér þátttöku í stríðinu. Þess í stað verður einungis unnt að koma vopnum og vistum til annarra ríkja en Úkrænu – þ.e. bara áleiðis en ekki alla leið. Þannig á að leggja á Úkrænumenn að klára málið. Það á eftir að koma í ljós hvernig til tekst en litlar líkur virðast á að vopn og vistir frá Vesturlöndum breyti miklu eða yfir höfuð skili sér þar sem þeirra er þörf
  3. Eftir að Kyiv hefur verið umkringd verður Úkrænustjórn í þeirri stöðu að þurfa að velja milli uppgjafar eða rússneskrar árásar á borgina sem valda mundi miklu mannfalli og eyðileggingu.
  4. Leiði viðræður Rússa og Úkræna – sem halda eiga áfram á morgun – til lausnar, þá verður hún með einhverjum hætti aðallega á kostnað Úkrænu.
  5. Ýmsar ástæður valda því að Úkrænumenn standa einir. Tvær þeirra vega þyngra en aðrar: Annarsvegar tengjast örlög Úkrænu ekki beinlínis þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Hins vegar er Úkræna á áhrifasvæði Rússlands, sem að auki er kjarnorkuvopnaveldi.

*Albert skrifar Úkræna með æ-i í texta sínum, en Viljinn skrifar heiti landsins jafnan Úkraína.