Stutt síðan Bjarni vildi fækka skattþrepum — nú fjölgar hann þeim

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins.

„Útspil fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins í kjaraviðræðum kemur verulega á óvart. Til stendur að flækja skattkerfið og taka aftur upp þrjú skattþrep. Það er stutt síðan hann lagði áherslu á mikilvægi þess að fækka skattþrepum og nýta kosti persónuafsláttar. Um það vorum við sammála og fækkuðum skattþrepum og hækkuðum persónuafslátt.“

Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins og fv. forsætisráðherra á fésbók, þar sem hann fjallar um útspil ríkisstjórnarinnar í skattamál sem eru sett fram til að reyna að ná fram friði á vinnumarkaði.

Rifjar Sigmundur Davíð upp að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar 2013 hafi formaður Sjálfstæðisflokksins sagt:

„Við ætlum að lækka tekjuskattinn að nýju og einfalda skattkerfið, hætta með þriggja þrepa skattkerfi.“

Í kjarasamningum 2015 var svo lögð áhersla á hækkun lægstu launa, hækkun persónuafsláttar og einföldun skattkerfisins.

Sigmundur Davíð segir að Bjarni Benediktsson hafi oft síðan gagnrýnt þriggja þrepa skattkerfi og þess vegna sé ekki auðvelt að sjá nú hvernig fjölgun skattþrepa geti verið til þess fallin að leysa úr stöðunni á vinnumarkaði eða bæta kerfið.

„Til þess eru betri leiðir eins og ég fer yfir á morgun,“ segir formaður Miðflokksins.