Kurr er meðal forystumanna ríkisstjórnarinnar vegna endurtekinna yfirlýsinga Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra um fyrirhugaðar breytingar á skattkerfinu og húsnæðismálum, sem enginn kannast við að hafi verið til umræðu í ríkisstjórn, hvað þá að samkomulag sé um að hrinda þeim í framkvæmd.
Á ársþingi Alþýðusambandsins á dögunum lýsti Ásmundur Einar því yfir, að hann vilji skoða sérstakan hátekjuskatt enda séu ofurlaun hér á landi úr öllu korti við veruleika almennings. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var fljótur til að benda á að ekkert væri um slík áform að finna í stjórnarsáttmálanum og að há laun væru nú þegar skattlögð mjög verulega. Með öðrum orðum: Málið væri ekkert á dagskrá og um frumhlaup félagsmálaráðherrans hefði verið að ræða.
Á fundi um stöðuna á húsnæðismarkaði í vikunni setti félagsmálaráðherra svo fram ummæli sem vöktu mikla athygli, en þar skýrði hann frá því að í ráðuneyti hans væru til athugunar áform um leiguþak á íbúðarhúsnæði. Þetta voru fréttir fyrir aðra ráðherra í ríkisstjórninni og einkum þó forystumenn hennar og vöktu ummælin furðu í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, enda vandséð hvernig slíkt þak virkar í framkvæmd.
Kallinn á kassanum heyrir að Ásmundur Einar Daðason telji réttilega að framundan geti verið býsnavetur í pólitík hér á landi með alvarlegum og jafnvel langvinnum átökum á vinnumarkaði. Hann sé farinn að skapa sér pólitíska sérstöðu með yfirlýsingum sínum um velferðarmál. Þær fái jákvæðar undirtektir í samfélaginu, en veki óánægju innan raða stjórnarflokkanna.
Viðskiptablaðið segir frá því í mola í dag, að Styrmir Gunnarsson fv. ritstjóri Morgunblaðsins sé orðinn hugmyndafræðilegur ráðgjafi Ásmundar Einars sem félagsmálaráðherra. Styrmir skrifi bæði ræður og ritmál fyrir ráðherrann.
„Auðþekkjanlegt sé hvað Styrmir eigi af því, hann noti lengri orð en ráðherranum er tamt,“ segir í mola ritstjórnar Viðskiptablaðsins.