Þótt athyglin hafi öll beinst að kórónuveirunni undanfarið og áhrifum hennar á heilsufar fólks og efnahag, er ekki þar með sagt að stjórnmálin liggi niðri í landinu. Meðal annars hefur þung undiralda meðal sjálfstæðisfólks í Kópavogi brotist upp á yfirborðið og virðist staða bæjarstjórans Ármanns Kr. Ólafssonar heldur viðkvæm um þessar mundir.
Athygli vakti á dögunum þegar Fréttablaðið gat þess að byggingafyrirtækið MótX ehf væri þungamiðjan í deilu sjálfstæðismanna í Kópavogi og haft eftir ónefndum heimildamanni að fækkun verkefna byggingafyrirtækisins í bæjarfélaginu kæmi til vegna persónulegar andúðar bæjarstjórans. Mótleikur forsvarsmanna MótX sé að bola Ármanni út úr ráðhúsi Kópavogs og koma sínum manni að í staðinn.
Þetta kom reyndum verktökum nokkuð á óvart, því MótX hefur á undanförnum árum haft næg verkefni víða á höfuðborgarsvæðinu og getur sannarlega ekki kvartað yfir verkefna- eða lóðaskorti. Þær byggingar sem fyrirtækið hefur komið að í Kópavogi komu í kjölfar útboða á lóðum eða byggingaframkvæmdum sem slíkum og sú er sem betur reyndin á þessum markaði í dag, að pólitísk afskipti upp á gamla mátann koma þar lítið við sögu.
Ástæður þess að vík er milli vina í Sjálfstæðisflokknum í Kópavogi, má fyrst og fremst rekja til þess að Ármann bæjarstjóri vildi eftir síðustu kosningar nánast einn manna í flokknum halda áfram meirihlutasamtarfi með Bjartri framtíð og eina bæjarfulltrúa flokksins, Theódóru Sigurlaugu Þorsteinsdóttur.
Félagar hans í bæjarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins höfðu nákvæmlega engan áhuga á því, ekki síst eftir þátt Theódóru og Bjartrar framtíðar í því að slíta ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar á næturfundi, og tóku því völdin af oddvita sínum og bæjarstjóra. Nokkuð sem hann hefur ekki fyrirgefið enn.
Andar því enn köldu á milli pólitískra samherja og fullvíst talið að á endanum komi til uppgjörs af einhverju tagi.
Þar gæti munað miklu um marga dygga og gamla stuðningsmenn bæjarstjórans, sem hefur gramist framganga hans að undanförnu og gætu orðið tregari í taumi en áður þegar kemur að næsta prófkjöri…