Í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra mátti glögglega greina á hvern hátt Samfylkingin hefur gjörbreytt ásýnd sinni og áherslum undir forystu Kristrúnar Frostadóttur.
Regnhlíf margra vinstri flokka sem stofnuð varð til að verða stór og öflugur jafnaðarmannaflokkur að norrænni fyrirmynd var orðinn minniháttar upphlaupsflokkur á tímabili; verkfæri aktivista og baráttufólks í einstökum málaflokkum, en ekki breiðfylking fólks sem líkleg var til þess að geta orðið forystuafl í stjórnmálunum eða mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn.
En því hefur Kristrún breytt. Hún hefur margreynda ráðgjafa með sér í liði og virðist óhrædd við að taka erfiðar ákvarðanir inn á við til að styrkja ytra byrðið og sækja fram. Segja má að flokkurinn sé að taka skref til hægri á margan hátt inn á miðjuna, þar sem fjöldafylgið er, en með klassískar áherslur jafnaðarmennskunnar að leiðarljósi. Velferðarmál eru komin fremst í röðina sem er skynsamlegt og aðild að Evrópusambandinu ekki lengur forgangsmál. Málin sem brenna á þjóðinni birtast nú meira í stefnu flokksins og formannsins og það sést vel í skoðanakönnunum að mörgum líkar þessi áherslubreyting vel, ekki síst þegar ein óvinsælasta ríkisstjórn sögunnar rígheldur í valdastólana án nokkurs sýnilegs erindis.
Samfylkingin hætt að fara í heljarstökk
Kristrún Frostadóttir veit vel að umdeild dægurmál á Twitter skipta litlu í stóra samhenginu og að stór breiðfylking getur ekki hlaupið upp til handa og fóta í hvert sinn sem stormur verður til í litlu vatnsglasi. Hún ætlar greinilega að tækla merkimiða upphlaupsflokksins hreint og beint, enda sagði hún sjálf á Alþingi í gær:
„Fólkið í landinu getur treyst því að Samfylkingin tekur örugg skref. Þannig vinnum við og þannig munum við stjórna, fáum við til þess traust í næstu kosningum. Samfylkingin fer ekki í heljarstökk. Við rjúkum ekki upp út af minnstu málum. Við látum ekki slá okkur út af laginu. Við erum Jafnaðarflokkur Íslands. Það er okkar að veita fólki öryggi og fullvissu um að við getum stjórnað í þágu þjóðar; staðið vörð um það sem fólki er kærast.“
Og Kristrún ætlar greinilega að leiða næstu ríkisstjórn og er að gera flokk sinn kláran í kosningabaráttu:
„Fólkið í landinu skilur vel að það er ekki hægt að gera allt. Það vill bara að stjórnmálafólk sé hreinskilið um þá vegferð sem það treystir sér í. Eða eins og ágætur maður sem ég rakst á á kaffihúsi um daginn sagði við mig: Maður gerir ekki miklar kröfur til stjórnmálamanna, bara að þau geri það sem þau segjast ætla að gera.
Þess vegna höfum við í Samfylkingunni viðurkennt að það þarf að forgangsraða, bæði á næsta kjörtímabili og í þeirri undirbúningsvinnu sem flokkurinn hefur þegar hafið með fjölda fólks um land allt. Það er efnahagur, velferð og öryggi fólks sem er númer eitt, tvö og þrjú hjá okkur.
Góðir landsmenn. Fyrir lok þessa mánaðar mun Samfylkingin kynna: Örugg skref í heilbrigðis- og öldrunarmálum. Verklýsing fyrir nýja ríkisstjórn, fimm þjóðarmarkmið í þessum veigamikla málaflokki, sem stendur fólki svo nærri frá degi til dags, ásamt aðgerðum, öruggum skrefum í rétta átt sem Samfylkingin vill stíga í nýrri ríkisstjórn að loknum næstu kosningum. Við höfum hlustað, meðtekið og sett á blað hvernig við viljum tryggja að grunnurinn sé í lagi, að fólk finni fyrir öryggi hvar sem það býr og hafi fastan tengipunkt við heilbrigðiskerfið, hvernig við drögum úr skriffinnsku og tryggjum að heilbrigðisstarfsfólk hafi meiri tíma með sjúklingnum, svo dæmi séu nefnd.
Þetta er það sem við erum að gera á meðan ríkisstjórnin er upptekin við að rífast við sjálfa sig um sín eigin sjálfsköpuðu vandamál, sitt eigið stjórnleysi í útlendingamálum, sitt eigið virkjanastopp og sitt eigið endalaus hringl með hvalveiðar. En það eina sem ríkisstjórnin virðist vera algjörlega sammála um innbyrðis er að halda áfram að reka skaðlega efnahags- og velferðarstefnu sem grefur undan stöðugleika og bítur í skottið á sér,“ sagði hún ennfremur.
Þetta er snjöll pólitík hjá nýjum formanni. Framundan er greinilega spennandi vetur…