Óhætt er að slá því föstu, að athyglin eigi á næstunni mjög eftir að beinast að Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík og snarpri prófkjörsbaráttu sem nú er að hefjast. Mikið er undir; ekki aðeins oddvitastaða í höfuðborginni heldur er einnig um að ræða hreina styrkleikamælingu á þeim tveimur kandídötum sem líklegastir eru til að taka við formennsku í Sjálfstæðisflokknum af Bjarna Benediktssyni. Og dagblöðin tvö, Morgunblaðið og Fréttablaðið blandast í slaginn.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra er núverandi oddviti og ætlar ekki að gefa sætið eftir baráttulaust. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur skorað hann á hólm og undanfarna daga hafa taugaveiklunarbylgjur farið gegnum allt flokksstarfið í borginni þegar dyggir flokksmenn gefa upp í samtölum sín á milli hvorn frambjóðandann þeir styðja.
Guðlaugur Þór er í viðhafnarviðtali í Fréttablaðinu um helgina og sýnir þar mannlega hlið. Þar er lögð áhersla á að hann komi úr grasrót flokksins; sé ekki hluti af fjölskyldunum sem telji sig hafa „átt“ flokkinn um langa hríð og hann sé rekinn áfram af hugmyndafræðilegum og einlægum pólitískum áhuga.
Fréttablaðið er í eigu Helga Magnússonar, sem lengi hefur verið dyggur stuðningsmaður Guðlaugs Þórs. Hann er líka viðskiptafélagi Ágústu Johnson, eiginkonu utanríkisráðherra, í gegnum Bláa lónið og Hreyfingu. Á öðrum vef í eigu sömu aðila, vef Hringbrautar, er spáð í spilin í dag undir yfirskriftinni: „Blóðug prófkjörsbarátta í Reykjavík sem Guðlaugur Þór mun vinna“ og ekki fer á milli mála hvar stuðningurinn liggur:
„Guðlaugur er leiðtogi flokksins í borginni og fátt sem getur breytt því í sjáanlegri framtíð. Þá gerist það að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra skorar hann á hólm og vill vinna fyrsta sætið. Það er djarft útspil og talið óvarlegt af þeim sem best þekkja innviði flokksins í Reykjavík.
Fyrir nokkrum vikum tókust fylkingar þeirra tveggja á innan flokksins þegar kosið var í stjórn Varðar sem er yfirstjórn flokksins í borginni. Vörður hefur meðal annars með prófkjör flokksins að gera og ákveður fyrirkomulag og endanlega lista.
Kosið var um sjö sæti í stjórn Varðar og því mikið í húfi fyrir fylkingar Guðlaugs og Áslaugar. Skemmst er frá því að segja að stuðningsmenn Guðlaugs Þórs hlutu öll sjö sætin en fylking Áslaugar ekkert sæti. Þessi slagur endaði sjö-núll. Þetta þykir benda til sterkrar stöðu Guðlaugs í borginni og er vísbending um öruggan sigur hans í prófkjörinu.
Aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Diljá Mist Einarsdóttir, hefur tilkynnt um framboð sitt með glæsilegum auglýsingum. Hún óskar eftir þriðja sætinu. Talið er að margir flokksmenn muni kjósa hana í annað sætið en það gæti orðið Áslaugu Örnu skeinuhætt. Ekki bætir úr skák að nú hefur Brynjar Níelsson einnig tilkynnt að hann gefi kost á sér í annað sætið. Þá má ætla að ýmsir úr hópi mestu hægri öfgamannana í flokknum kjósi Sigríði Andersen í annað hvort af efstu sætunum.
Þar af leiðandi er alls óvíst að Áslaug Arna nái öðru sætinu og þar með að leiða lista. Það yrði mikið áfall fyrir hana ef henni tækist ekki að ná þeim árangri að leiða annan hvorn lista flokksins í borginni. Það myndi trufla framasókn hennar innan flokksins mikið.“
Gangi þessi spádómur eftir má rifja upp að svipað gerðist í frægu prófkjöri fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 þegar Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson og Gísli Marteinn Baldursson öttu kappi um oddvitastöðu innan Sjálfstæðisflokksins. Hanna Birna Kristjánsdóttir gaf kost á sér í annað sætið. Stuðningsmenn beggja settu sinn mann í efsta sæti og studdu svo Hönnu Birnu þvínæst, en allur gangur var á því hvar höfuðandstæðingurinn lenti, eða hvort hann komst yfirleitt á blað. Fyrir vikið þýddi sigur Vilhjálms Þ. að Gísli Marteinn féll niður í þriðja sætið og það var því Hanna Birna sem tók við sem borgarstjóri síðar á kjörtímabili, en ekki Gísli Marteinn, enda hafði hún unnið sitt sæti með miklum glæsibrag.
Líklegt má telja nú að Brynjar Níelsson hafi slíkt persónufylgi meðal almennra sjálfstæðismanna, hvort sem þeir styðja Áslaugu Örnu eða Guðlaug Þór, að hann gæti hlotið góða kosningu í annað eða þriðja sætið. „Brynjar er algjörlega ómissandi,“ segja margir sjálfstæðismenn.
Hringbraut skrifar (eða Helgi Magnússon öllu heldur) að útspil Áslaugar Örnu þyki djarft og óvarlegt, af þeim sem best þekki innviði flokksins í borginni. Af þeim ummælum er nokkur hrútalykt. Ekki er heldur líklegt að Áslaug láti sig slíkt miklu skipta, enda virðist hún óhrædd við að taka djarfar ákvarðanir og fylgja þeim eftir. Það gustar um Áslaugu Örnu sem dómsmálaráðherra, hún kann vel að nýta sér samfélagsmiðla og er ekki líkleg til að biðja neinn um leyfi fyrir einu né neinu, enda ástæðulaust. Og það á enginn neitt í pólitík.
Athyglisvert er í þessu sambandi að á móti Fréttablaðstengingu Guðlaugs Þórs er Morgunblaðstenging Áslaugar Örnu sterk gegnum föður hennar, Sigurbjörn Magnússon hæstaréttarlögmann og stjórnarformann blaðsins. Þess vegna kom kannski ekki mjög á óvart, að Morgunblaðið birti stórt viðtal við dómsmálaráðherra um helgina þar sem hún sýndi einnig mannlegar hliðar í samtali við Andrés Magnússon og segir í fyrirsögn „Ég vil vinna“.
Framundan er blóðugur slagur millum samherja og vík gæti skapast milli vina að honum loknum. Það er gömul saga og ný úr stórum prófkjörum. Sigurvegarinn í stóru prófkjöri getur með beinum og óbeinum hætti litið á sig sem verðugan eftirmann Bjarna Benediktssonar, þegar að því kemur að hann segi skilið við stjórnmálin, og sá sem tapar er í verri stöðu en áður til að gera sama tilkall.
Kosningamaskína Guðlaugs Þórs er ótrúleg þegar hún fer í gang, það þekkja allir sem eitthvað vita í pólitík. Hann á sér marga dygga stuðningsmenn sem eru tilbúnir að leggja mikið á sig. Áslaug Arna ætlar sér stóra hluti og margir fylgja henni að málum, t.d. Svanhildur Hólm Valsdóttir, fv. aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar. Hversu mikið það segir um vilja forystunnar í Valhöll, ef eitthvað, á eftir að koma í ljós…