Telur Ríkisútvarpið hafa slegið öll met í lágkúru –– „hefnd sett í búning fréttar“

Brynjar Níelsson fv alþingismaður.

„Nú held ég að Ríkisútvarpið, sem margir trúa að sé útvarp allra landsmanna, hafi slegið öll met í lágkúru þegar í aðalfréttatíma voru upplýsingar um hverjir hafi réttarstöðu sakbornings í rannsókn með myndbirtingu sem snýr að starfsemi Samherja í Namibíu. Enginn annar fjölmiðill hefur lagst svona lágt.“

Þetta segir Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í færslu á fésbókinni í dag. Ríkisútvarpið birti myndir af sex starfsmönnum Samherja í gær og nafngreindi þá sem fréttastofa RÚV kvaðst hafa heimildir fyrir að hefðu fengið stöðu sakbornings hjá Héraðssaksóknara vegna rannsóknar á svonefndu Namibíumáli.

Brynjar, sem er fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands, segir að við rannsókn mála fái þeir sem veitt geta upplýsingar oftar en ekki réttarstöðu sakbornings sem veiti þeim mestu réttindin við rannsóknina.

„Það er mjög þungbært fyrir venjulegt fólk og starfsmenn fyrirtækis sem er til rannsóknar og upplýsingar og myndbirting af þessu tagi er til þess fallið að valda viðkomandi skaða. Þetta lítur út eins og hefnd sett í búning fréttar enda fréttin birt með þessum hætti deginum eftir kæru Samherja til siðanefndar RUV.

Stundum er sagt að ríkisútvarpið sé almannaútvarp í eigu allra landsmanna. Ég vil ekki eiga hlut í félagi sem stundar svona vinnubrögð og afsala honum hér með og krefst ekki endurgjalds. Vildi gjarnan að þeir sem fara með hlut almennings í þessu félagi reyni að koma því til leiðar að því sé stjórnað svo einstakir starfsmenn geti ekki notað miðilinn eins og þeim sýnist í átökum við einstaklinga og fyrirtæki úti í bæ,“ segir hann.