Sjálfstæðisflokkurinn fær réttmæta gagnrýni í forystugrein Þjóðmála sem komu út í morgun, þar sem ritstjórinn Gísli Freyr Valdórsson veltir fyrir sér stöðu flokksins eftir fjögurra ára samstarf með Vinstri grænum, með „framsókn í eftirdragi“, eins og hann orðar það.
Vísar Gísli Freyr til þess að stjórnarliðar vísi einatt til þess að ríkisstjórnin hafi verið mynduð um stöðugleika og enginn annar kostur hafi verið í boði, en bendir á að Sjálfstæðismenn hafi liðið fyrir með sínar hugsjónir og beri t.d. ábyrgð á ríkisvæðingu heilbrigðiskerfisins.
„Sjálfstæðisflokkurinn boðar nú, réttilega, að eina leiðin til að koma í veg fyrir að vinstri stjórn taki hér við völdum sé að tryggja það að Sjálfstæðisflokkurinn komi vel út úr kosningunum. Það er vissulega rétt og með hagkerfið í viðkvæmu stöðu hefur þjóðin í raun ekki efni á því að leiða vinstri stjórn til valda,“ skrifar ritstjórinn og bætir við:
„Stefnumál og áherslu Sjálfstæðisflokksins þurfa þó að vera einhverjar aðrar en þær að semja sig frá eða stoppa verstu málin frá Vinstri grænum. Ef að Sjálfstæðisflokkurinn sinnir ekki sínum eigin kjósendum þá fara þeir eitthvað annað – og reynslan á liðnum áratug hefur sýnt okkur að það er auðvelt að stofna nýjan stjórnmálaflokk.“
Svo mörg voru þau orð.