Það sem enginn þorir að segja (upphátt)

Það er léttara yfir fólki í samfélaginu, enda sólin að hækka á lofti og fyrsta bylgja kófsins að baki. Þótt allir viti að staðan geti breyst skjótt aftur til hins verra, er eins og þjóðin ætli að hafa bjartsýnina að leiðarljósi í sumar og vona það besta.

Þetta reddast, er viðhorfið og vonandi mun það fleyta okkur vel áfram veginn.

Í pólitíkinni óttast menn hins vegar næstu bylgju, hvort sem hún kemur með opnun landsins eða í haust. Og ekki síður óttast stjórnmálamennirnir ástandið í samfélaginu í haust þegar ótrúlega stór hluti landsmanna verður enn án atvinnu, er kominn af launum á uppsagnarfresti og búinn með tekjutengdar bætur og verður ætlað að lifa á berstrípuðum bótum eða jafnvel einhverju hlutfalli af þeim.

Þá verður ekki sama stemningin. Og kosningavetur að hefjast.

Viðbúið er jafnframt að fjölmörg fyrirtæki gefist upp á næstu dögum og vikum, nú þegar er að renna upp endanlega fyrir fólki að erlendir ferðamenn verða í litlum mæli hér á næstu misserum og reka þarf þjóðfélagið á grundvelli þeirra sem hér búa að jafnaði.

Við erum nefnilega frekar fá Íslendingar og fyrst varð rekstrargrundvöllur fyrir allskonar starfsemi hér þegar milljónir útlendinga fóru að venja komur sínar til landsins.

Það verður bæði sárt og erfitt að spóla aftur á bak í tíma. Og ávísun á harkalega lendingu hjá mörgum. Það er bara óumflýjanlegt.

Svo er hitt, sem enginn þorir að segja –– upphátt að minnsta kosti. Sem er að stefnan í stjórnkerfinu og hjá bönkunum er að hreinsa út þá sem stóðu illa fyrir og voru í reynd komnir að fótum fram af margvíslegum ástæðum þegar kórónuveiruósköpin dundu yfir.

Þetta er kallað nauðsynleg leiðrétting.

Það er þess vegna sem allskyns björgunaraðgerðir á borð við brúarlán, lokunarstyrki og stuðningslán eru jafn lengi í fæðingu og raun ber vitni. Það er þess vegna sem ekkert af þessu er enn komið til framkvæmda, jafnvel þótt vikur og mánuðir líði og hver mánaðarmótin á fætur öðrum.

Veitingamaður einn benti í gær á að ekki hafi ein umsókn verið afgreidd enn, enda hvergi hægt að sækja um.

„Kannski á að hreinsa út litlu fyrirtækin.“

Það skyldi þó ekki vera?