Gott var og mikilsvert að finna breiðan og þverpólitískan stuðning á Alþingi í gær við lagasetningu um björgunaraðgerðir og viðbragð vegna náttúruhamfaranna á Reykjanesi.
Hins vegar má segja að þjóðin hafi ekki þurft á enn einni skattahækkuninni að halda frá ríkisstjórninni. Skuldsett heimili með síhækkandi greiðslubyrði og kostnað við daglegt líf hefðu fremur þurft á öðrum skilaboðum að halda, en þegar kemur að ríkisrekstrinum vill mikið alltaf meira og sér vart lengur á svörtu í þeim efnum. Og átakanlegt var að sjá Sjálfstæðisflokkinn standa enn og aftur að slíkum aðgerðum, enda mátti heyra á mörgum þingmönnum flokksins í dag óánægjustunur og kvein yfir þessari vegferð allri.
Einhvern tímann hefði mátt treysta því að Sjálfstæðisflokkurinn væri málsvari skattgreiðenda á þingi, en ekki er að sjá að þannig sé staðan nú. Samt er vitað að einstakir þingmenn flokksins eru með böggum hildar yfir þeirri þróun að sífellt sé leitað að nýjum og nýjum leiðum til að skattleggja fólk og fyrirtæki. En það er að minnsta kosti bót í máli, að Viðreisn og Miðflokkurinn standi vaktina fyrir borgaralegu öflin. Ekki veitir af.
Mikilvægt er að árétta að þetta hefur ekkert með einróma stuðning við Grindvíkinga að gera. Það er hins vegar rétt, sem Bergþór Ólason, formaður þingflokks Miðflokksins, sagði á þingi í gær, að mótmæla megi því harðlega að fyrsta lausnin í þessum efnum sé að auka skattheimtu borgarana í landinu, þótt skýr sé stuðningur við aðgerðir til að milda högg af völdum náttúruhamfara.
„Hvernig getur það verið að þegar atburðir eins og þeir sem nú er að eiga við og eru í gangi sé fyrsta viðbragð ríkisstjórnarinnar að auka skatta? Ég hefði ekki trúað þessu á suma sem ríkisstjórnina styðja, en svona er þetta nú samt. Ég held miðað við að við höfum það í huga að ráðherrar ríkisstjórnarinnar valsa hér um dagana langa og útskýra að hér verði þjóðarhallir og dvalarheimili byggð innan úr varasjóðum ríkissjóðs og mæta síðan hér og eru ekki til í það að tilkynna að við ætlum að byggja þessa varnargarða þannig að mestar líkur séu á því að mestu verðmætum sé bjargað innan úr þeim fjármunum sem við höfum þegar ráðstafað til varúðar, heldur ætlum við að leggja á meiri skatta — það eru ekki skilaboð sem við eigum að senda elsku vinum okkar í Grindavík sem eiga nú um bágt að binda,“ sagði hann og skal undir tekið.
Skakkur tónn í samtalið
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, helsta vonarstjarna Viðreisnar, var á sömu blaðsíðu í sínum málflutningi. Hún hefur verið dugleg við að benda á skattafíkn þessarar ríkisstjórnar og hélt því ótrauð áfram í gærkvöldi, þótt hún tæki eins og Bergþór skýrt fram að hún styddi aðgerðir til handa Grindvíkingum.
„Mig langaði hins vegar að nefna að almennur varasjóður í fjárlögum hefur beinlínis það hlutverk að mæta ófyrirséðum útgjöldum ríkissjóðs vegna náttúruhamfara. Þessi varasjóður fyrir árið í ár geymir um 35 milljarða en ætluð útgjöld vegna varnargarðs og þeirra innviða sem ætlað er að verja eru samkvæmt frumvarpinu sjálfu um 2 milljarðar. Það fer að mínum dómi gegn markmiðum laga um opinber fjármál að ætla að sækja fjármunina með þessari skattheimtu sem ríkisstjórnin er hér að leggja til því að það er einfaldlega ekki þörf á því.
Það er ekki þörf á því að fara í skattheimtu til að fara í þá vinnu, þá nauðsynlegu vinnu sem þetta frumvarp leggur til við að verja þá innviði sem ætlunin er að verja, því að til þess er hinn almenni varasjóður. Fjármunir fyrir svona ófyrirséð atvik eru geymdir sérstaklega þar, fyrir meiri háttar, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg útgjöld eins og þau sem við okkur blasa til að vernda mikilvæga innviði núna fyrir afleiðingum hugsanlegra eldsumbrota.
Það blasir við að það er vel hægt að mæta þessum útgjöldum án þess að fara þessa leið því að löggjafinn hefur nefnilega búið þannig í haginn að við sem þjóð eigum sameiginlegan sjóð til að mæta þungum, erfiðum og óvæntum áföllum sem þessum. Nauðsynlegur flýtir við að afgreiða þetta mál hér í kvöld útskýrir skattinn að mínu viti ekki heldur því að þessar tekjur á ekki sækja fyrr en á næsta ári, 1. janúar næstkomandi. Ég vildi bara nefna þetta sem nefndarmaður í fjárlaganefnd því að mér finnst þetta sérstakt og óþarfi þar sem þessi sjóður er til og slá dálítið skakkan tón í samtalið,“ sagði hún.