Þarf Ísland aftur varnarlið?

„Þarf Ísland aftur varnarlið?“ Þessari spurningu varpar Friðrik Jónsson, formaður BHM og sérfræðingur í öryggis- og varnarmálum á fésbókinni, en Friðrik hefur vel á þriðja áratug verið starfandi í utanríkisþjónustunni, meðal annars á vettvangi Alþjóðabankans, Atlantshafsbandalagsins og Sameinuðu þjóðanna og í sendiráðum Íslands í Washington og Kaupmannahöfn. Hann hefur einnig verið fulltrúi Íslands í embættismannanefnd Norðurskautsráðsins.

„Ég hef verið margspurður þessarar spurningar undanfarnar vikur. Eðlilega. Stutta svarið er einfaldlega þetta: Áður en Ísland stígur fram og gerir kröfur til annarra ríkja um aukin framlag til okkar varna þurfum við fyrst að líta í eigin barm og meta og ákveða hvað við þurfum og viljum leggja til sjálf.

Hafið í huga að með fjárlögum 2022, þar sem formleg útgjöld til varnarmála fara í fyrsta sinn yfir 3 milljarða, erum við núvirt rétt að komast á sama stað og við stofnun Varnarmálastofnunar fyrir 14 árum síðan. Aukin útgjöld til varnarmála á síðustu árum hafa ekki skilað okkur lengra en það.

Að sama skapi hafa enn engin tíðindi borist af því að Ísland sé að undirbúa auknar fjárveitingar til varnarmála tengt virkjun varnaráætlana Atlantshafsbandalagsins, sem þó var tilkynnt um af NATO á fyrstu viku innrásar Rússlands í Úkraínu. Í þeim áætlunum er gert ráð fyrir auknu umfangi bandalagsins í Keflavík, þó ekki væri nema vegna mögulegra liðsflutninga yfir Atlantshafið. Þar berum við a.m.k. skyldu til að veita gistiríkjastuðning, sem kostar strax sitt.

Aftur, áður en þú gerir kröfur til annarra þarftu að svara hvaða kröfur þú ætlar að gera til sjálfs þíns. Þær kröfur verða allar að byggja á raunsæju mati á bæði skuldbindingum og raunverulegum þörfum. Treysti því að hvoru tveggja sér verið að meta vel og vandlega af íslenskum stjórnvöldum,“ segir Friðrik í færslu sinni.