Helgi Hrafn Gunnarsson, sem nýhættur er á þingi fyrir Pírata, skrifar athyglisverða hugleiðingu á fésbókina í gær um deilur samherja í stjórnmálaflokkum eða félagasamtökum og um þátt sterkra leiðtoga sem lenda í illdeilum við samstarfsmenn sína.
Engum blandast hugur um að þarna vísar Helgi Hrafn í skrifum sínum meðal annars til deilna innan Píratahreyfingarinnar við stofnandann Birgittu Jónsdóttur, sem var að lokum harðlega gagnrýnd og hafnað á frægum félagsfundi sem Viljinn sýndi upptöku frá, og eins eru þarna vísanir í þær deilur sem nú standa yfir í verkalýðshreyfingunni Eflingu og átökin kringum formanninn Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Eflaust má aukheldur finna frekari vísanir til, enda segir Helgi Hrafn sjálfur að dæmin séu nokkur.
Hann skrifar:
„Ein af súrustu lexíunum sem ég lærði af því að vera í pólitík, er að sjá hvernig fólk sem berst fyrir góðum, mikilvægum málstað, getur leyft sér andstyggilega og ómerkilega framkomu í þeirri baráttu, jafnvel gegn samherjum sínum. Það er lítil og mögulega engin trygging fyrir því að réttmætar aðferðir séu notaðar í baráttu fyrir réttmætum málstað. Þetta eru tveir algerlega ólíkir hlutir.
Önnur af súrustu lexíunum er hvernig sumt fólk, sem er í því hlutverki að berjast fyrir hagsmunum annarra og einkennir sig beinlínis þannig, lætur síðan sína eigin hagsmuni ráða förinni þegar á reynir, sérstaklega þegar því finnst vegið að egóinu. Þessir einstaklingar virðast samsama sjálfa sig baráttunni mjög auðveldlega, og taka því sem árás á málstaðinn að verða fyrir persónulegri gagnrýni.
Þriðja af súrustu lexíunum er hvernig þessir sömu einstaklingar geta verið sterkir samherjar meðan maður er sammála þeim og gerir eins og þeir vilja, en breytast á núlleinni í einhvers konar óvini um leið og maður verður ósammála þeim, eða gerir eða segir eitthvað sem þeim finnst skyggja á ljós sitt.
Þetta er ekki einstakt. Þetta er ekki einu sinni sjaldgæft. Þessi týpa er mjög víða í pólitík og hún er engan veginn bundin við hægrið eða miðjuna eða vinstrið, vonda málstaði eða spillt stjórnmálaöfl. Hún getur komist til metorða í góðum félagsskap sem berst af heilindum fyrir réttlæti og umbótum í samfélagi sínu, hvert sem það er. Við skulum aldrei halda að málstaðurinn okkar eða félagsskapur séu svo góðir og svo mikilvægir, að leiðtoginn megi segja og gera það sem honum sýnist. Tilgangurinn helgar ekki meðalið.
Ef þú ert að velta fyrir þér hvort leiðtoginn sé orðinn að vandamáli, spurðu þig: ef þú verður þess valdandi að leiðtoginn fái ekki eitthvað sem hann vill, býstu við því að eitthvað slæmt komi fyrir þig? Eða geturðu verið ósammála leiðtoganum og hann samt borið sömu virðingu fyrir þér og áður, þótt hans álit og vilji verði undir?
Ef svo er ekki, þá er leiðtoginn þinn ekki að standa sig. Í góðum félagsskap með góðan málstað, þá eigum við ekki að hræðast leiðtogana okkar. Við berum kannski virðingu fyrir þeim, en þeir eiga líka að bera virðingu fyrir okkur, og þegar okkur finnst við þurfa að óttast þá, þá er kominn tími til að skipta um. Sérstaklega þegar málstaðurinn er góður.“