„Síðustu kannanir um trúverðugleika opinberra stofnana eru eftirtektarverðar. Þær sýna að minnst álit alls hafa menn sameiginlega á stjórn höfuðborgar landsins. Hvorki meira né minna en 84 prósentum þeirra þykir ekki mikið til hennar koma. Og verður ekki sagt að þessi hraksmánarlegi dómur þurfi að koma á óvart. Hvert dæmið rekur annað um stjórnleysi, áhugaleysi, skort á þjónustulund hjá fyrirtæki þar sem fyrsta boðorðið og flest hinna eiga að snúast um að veita eigendum sínum, borgarbúum, góða þjónustu. Sú krafa á meira en fullan rétt á sér og þá ekki síst þar sem gjaldtaka fyrir hana hækkar stöðugt og langt umfram þróun verðlags í landinu.“
Þannig hefst leiðari Morgunblaðsins í dag, þar sem ritstjórinn og borgarstjórinn fyrrverandi, Davíð Oddsson, heldur á penna (eða slær á lyklaborð).
„Það er svo annar angi af uppdráttarsýkinni að í hvert skipti sem borgaryfirvöld eru staðin að verki með allt niðrum sig er ábyrgðinni vísað annað, og þá oftast út í hafsauga. Og nýjasta afbrigðið er að æðsti „hlutlausi“ embættismaður borgarinnar ræðst að kjörnum fulltrúum með hroka og belgingi fyrir það eitt að spyrja spurninga og krefjast skýringa. Allt er það með miklum ólíkindum.
En könnunin sýnir svo ekki verður um villst að borgarbúar eru komnir með upp í kok,“ segir ennfremur í leiðaranum.