Þetta er ekki unga fólkinu að kenna

Áhugavert er að fylgjast með fálmkenndum viðbrögðum Seðlabankans við aðsteðjandi kreppu, verðbólgu og ofhitnun á fasteignamarkaði. Vextir hækka jafnt og þétt og nú á að lækka hámarkshlutfall húsnæðis fyrstu kaupenda niður í 85%.

Vandinn er að staðan nú er ekki unga fólkinu að kenna. Það glímir við þá stöðu að sífellt erfiðara verður að koma inn á bólginn markað þar sem verð er í hæstu hæðum og framboð lítið. Foreldrarnir eða ömmur og afar þurftu sannarlega ekki að greiða svo svimandi upphæðir til að byrja að búa á sínum tíma.

Stóri vandinn er í fyrsta lagi að allt of lítið hefur verið byggt, nýtt byggingarland skipulagt of seint og of mikil áhersla verið lögð á þéttingarreiti á dýrum svæðum. Það kostar mikið að kaupa lóðir og tilheyrandi húsakost, rífa allt heila hlabbið, láta skipuleggja og teikna og sprengja lengst niður til að koma fyrir kjallara og nógu mörgum hæðum til að verkið beri sig. Aukinheldur er orðið miklu algengara en áður, að fólk eigi húsnæði og eina eða tvær aukaíbúðir í útleigu. Aukið svigrúm vegna hækkandi eiginfjár í eigin fasteign og lægri vextir gerðu það að verkum að margir endurfjármögnuðu og nýttu fjármagnið meðal annars í þessum tilgangi.

Við ættum alveg sérstaklega að aðstoða þá sem eru að kaupa í fyrsta sinn eða eru í vandræðum á leigumarkaði en með greiðslugetu til að standa straum af eðlilegu húsnæðisláni. Ekki spákaupmönnum sem safna eignum til að leigja þær út. Slíkt skekkir allan markað og við megum ekki við því þegar framboðið er svona lítið og margir á eftir því litla húsnæði sem er laust.