Þetta fékk framsókn

Það gengur ýmislegt á í stjórnarsamstarfinu, enda þótt Katrín Jakobsdóttir verði að fá prik fyrir það hvernig henni tekst að halda saman nokkuð samhentri ríkisstjórn úr þremur giska ólíkum flokkum.

Svo virðist sem hugmyndafræðilegt uppgjör sé óumflýjanlegt hjá Sjálfstæðisflokknum og gæti það orðið bæði sögulegt og blóðugt í óeiginlegri merkingu. Vinstri grænir virðast — merkilegt nokk — kunna vel við sig við stjórnvölinn og þar ber minna á villtum köttum sem þarf að smala en áður. En Framsóknarflokkurinn virðist nánast horfinn, hann nær vart máli þegar að umræðunni kemur; stór mál eru keyrð áfram í beinni andstöðu við samþykktir hans og þegar kom að samkomulagi um þinglok virðist engum yfirleitt hafa dottið í hug að spyrja forystumenn hans álits.

Baklandið innan Framsóknarflokksins er óánægt með stöðu mála og kom það skýrt fram í máli margra fulltrúa á miðstjórnarfundi nýverið. Hélt þar Guðni Ágústsson, fv. formaður flokksins, mikla eldmessu og vandaði flokkssystkinum ekki kveðjurnar.

Lokadagar hvers þings eru öðrum þræði markaður þar sem samið er um framgang mála; hvað á að keyra áfram til samþykktar og hvað á að víkja eða bíða. Margir hafa undanfarið spurt sig hvað framsókn hafi eiginlega fengið í sinn snúð, því ekki er að sjá að nokkur af helstu baráttumálum flokksins hafi orðið ofan á á lokasprettinum.

Kannski átti Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kollgátuna þegar hann setti fram þessa færslu á fésbókinni í gær.