Þetta snerist ekkert um kvenfrelsi eða sjálfsákvörðunarrétt

Dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, fv. alþingismaður.

„Með skrílslátum og húrrahrópum af pöllum, eins og á vel heppnuðum fótboltaleik en ekki atkvæðagreiðslu sem varðar líf og dauða ófæddra barna, var gengið frá þungunarrofsfrumvarpinu í þinginu. Nú er heimilt að eyða 22ja fóstri í móðurkviði án þess að fyrir því liggi neinar skilgreindar ástæður aðrar en „vilji“ móður. Og húrrahrópin dynja í eyrum.“

Þannig kemst dr. Ólína Þorvarðardóttir, fv. þingmaður Samfylkingarinnar, að orði á fésbókinni eftir að frumvarp heilbrigðisráðherra um þungunarrof varð að lögum í gær.

„Margar vondar ræður voru fluttar af þessu tilefni og margur frasinn var látinn fjúka um „stærsta kvenfrelsismál sögunnar“ og mikilvægi málsins fyrir „sjálfsákvörðunarrétt kvenna“. Hvorugt er þó raunveruleg ástæða þess að málið kom í þessum búningi inn í þingið, því raunverulega ástæðan fyrir 22 vikum í stað 18 vikna (sem voru upphaflega lagðar til) lúta að fósturskimun vegna hugsanlegra fósturgalla. En það stenst ekki mannréttindasáttmálann að hafa sérstakar reglur um að eyða fóstrum vegna fötlunar – og þá var um að gera að búa málið í búning kvenfrelsis og sjálfsákvörðunar. Sú sjónhverfing virkaði. Húrrahrópin gullu við,“ segir hún ennfremur.

Ljóst er að Ólínu er ekki skemmt yfir lyktum málsins, né því að fagnað hafi verið með lófataki og húrrahrópum á þingpöllum í gærkvöldi þegar niðurstaðan lá fyrir.

„Svona fannst þeim viðeigandi að ljúka málinu. Með hrópum og köllum. Þessi húrrahróp munu lengi óma í huga mér er ég hrædd um. Skræk og skerandi eins og þegar hnífi er strokið við málm,“ bætir Ólína við.