„Þeir stjórnmálamenn sem vilja færa aukin yfirráð yfir orkumálum Íslendinga til ESB upplýsa aldrei hvað sé gott við þann gjörning. Fara með talpunkta þar sem staðhæft er að það sé ekki endilega öruggt að eitthvað sé verulega vont við það. Þá sé heldur ekki algjörlega öruggt að valdatilfærslan á orkumálum brjóti gegn íslensku stjórnarskránni, enda megi skoða það atriði síðar! Eina sem þessir framsalsmenn yfirráða orkumála nefna, er að sé kröfum um það valdaframsal ekki hlýtt sé EES-samningurinn í hættu! Í næsta orði taka þeir þó fram að orkupakkarnir séu ekkert mál, ekkert hættuspil og hjal tveggja lausráðinna stjórnmálamanna á fundi í útlöndum hafi eytt öllum vafa.“
Þetta skrifar Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, í leiðara dagsins, þar sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur — og þá síðarnefndi flokkurinn sérstaklega — fá fyrir ferðina fyrir afstöðu sína til innleiðingar þriðja orkupakkans, sem nú hefur verið frestað til ágústloka.
„En þótt þetta sé sem sagt ekkert mál og ekki sé algjörlega öruggt að það brjóti stjórnarskrá landsins, þá sé það á hinn bóginn stórbrotið hættuspil að hlýða ekki kröfum ónefndra skrifstofumanna í Brussel sem hafi sagt við ónefnda skrifstofumenn á Rauðarárstígnum að ella sé EES-samningurinn í uppnámi. Engu virðist breyta þótt ekki sé fótur fyrir þessum hótunum og þær styðjist ekki við nein gögn um þennan samning. Hvorki stuðningsmenn Framsóknarflokksins né Sjálfstæðisflokksins kaupa þetta óráðstal og þykir það niðurlægjandi fyrir þá, en þó sérstaklega fyrir stjórnmálamennina sem samsama sig bullinu og dæma sig þar með úr leik sem menn sem taka megi mark á,“ segir Davíð.
Hann bendir á að nýleg könnun sýni að 57% þjóðarinnar eru á móti innleiðingu orkupakkans en tæplega 30 % með. Önnur ný könnun MMR sýni að 48% stuðningsfólks Sjálfstæðisflokksins eru á móti þessu „óskiljanlega brölti“ (58% þeirra sem tóku afstöðu) og einungis 33% hlynnt.
„Niðurbrot þessarar könnunar er merkilegt. Það sýnir að á meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins eru 30% mjög andvíg orkupakkabröltinu en aðeins 18% mjög hlynntir því!
En hvort sem horft er til þessara 58% af stuðningfólki Sjálfstæðisflokks sem tók afstöðu gegn orkupakkabrölti eða þeirra 30 prósenta sem er hvað mest niðri fyrir vegna framgöngu flokksins (sem aðeins 18% styðja af ákafa) kemur eitt í ljós. Í þingflokknum eiga þessi 58% engan stuðningsmann.
Hvernig í ósköpunum getur einn þingflokkur komið sér þannig út úr húsi hjá sínum stuðningsmönnum? Sérhver stjórnmálaflokkur sem uppgötvaði að 20-30% stuðningsmanna hans væri andvígur máli sem breyst hefði í stórmál sem hann sæti uppi með yrði mjög hugsandi. En hvað þá þegar 58% stuðningsmanna flokks botna ekkert í því hvert hann er að fara. Þá er eitthvað stórkostlega mikið að. Einhverjir hafa kvartað yfir því að Morgunblaðið hafi talið sig eiga samleið með 58 prósentum stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins í orkupakkamálum. Blaðið bindur sig ekki við flokka en er þó ánægt með þennan fjölda samferðamanna úr þessum flokki. Reyndar var ekki vitað betur í heilt ár en að þessi mikli meirihluti flokksfólks og blaðið hefði jafnframt verið samferða formanni flokksins, sem hafði gert afstöðu sína ljósa með mjög afgerandi hætti úr ræðustól Alþingis.
Það eina óskiljanlega er að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er úti að aka með öðrum en stuðningsmönnum sínum og jafnvel lakar staddur í þeim efnum en þegar flokknum var óvænt ýtt skýringarlaust út á svipað forað í Icesavemálinu forðum,“ bætir Davíð við.
„Könnunin sýnir einnig að þetta skrítna mál þar sem Sjálfstæðisflokkurinn leggur til atlögu við yfirgnæfandi meirihluta stuðningsmanna sinna, hefur eingöngu góðan stuðning hjá kjósendum smáflokkanna Viðreisnar og Samfylkingar, eða um 74% fylgi hjá hvorum. Ráða þeir virkilega ferðinni?“ spyr Davíð ennfremur.