Þingforseti fer í fýlu

Forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon. / Viljinn: Rúnar Gunnarsson.

Þingreyndustu menn muna ekki eftir sambærilegu atviki og því sem gerðist við upphaf þingfundar á Alþingi í dag, þegar þingforsetinn Steingrímur J. Sigfússon sleit óvænt fundi sem var nýhafinn eftir gagnrýni frá Jóni Þór Ólafssyni Pírata á fundarstjórn forseta og þá dagskrá sem lögð hafði verið fram.

Jón Þór steig í pontu, eins og sjá má í myndskeiðinu hér að neðan, og taldi 26 þingmenn, og benti á hið augljósa að það stríddi gegn fjöldatakmörkum sóttvarnayfirvalda. Sagði hann mikla mætingu í þingsal koma til vegna þess að þingforsetinn hefði virt óskir þingmanna að vettugi og sett umdeild mál á dagskrá og þar með væri ljóst að taka yrði lýðræðislega umræðu um þau.

Þessu ansaði Steingrímur í engu, heldur sleit óvænt fundi og vék úr stóli forseta. Eftir sat þingheimur — eitt spurningamerki.

Við þær furðulegu aðstæður sem eru uppi í samfélaginu er mikilvægt að forystufólkið okkar haldi jafnvægi og láti ekki stundarpirring slá sig út af laginu. Þetta ætti Steingrímur J. með alla sína þing- og ráðherrareynslu að vita manna best.

Honum hefði verið í lófa lagið að taka mínútuhlé og biðja nokkra viðstadda þingmenn um að ganga úr sal og sitja í hliðarherbergjum svo ganga mætti til dagskrár. Hann hefði líka vel getað sleppt umdeildum dagskrárliðum, svo unnt hefði verið að klára brýn mál og afgreiða fyrirspurnir. Sannarlega er nóg um að ræða, nú þegar samfélagið og atvinnulífið er á hliðinni.

Hann hefði eiginlega átt að gera allt annað en rjúka í fýlu og slíta fundi. Þar með hefur hann rofið pólitísk grið og ýtt undir kenningar um að hann sé fremur forseti meirihlutans en þingsins alls.

Það var ekki gott hjá honum og vonandi nær Katrín Jakobsdóttir að miðla málum í framhaldinu. Það mættu margir læra af henni þegar kemur að stjórnvisku og leiðtogahæfileikum á erfiðum tímum.